Viðskipti innlent

Eigendur Nam íhuga að fela staðinn við Laugaveg

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Veitingaleyfi Nam tilheyrði áður ferðaskrifstofunni Around Iceland sem hafði leyfi fyrir litlu kaffihúsi í rými staðarins með því skilyrði að það sæist ekki frá götu.
Veitingaleyfi Nam tilheyrði áður ferðaskrifstofunni Around Iceland sem hafði leyfi fyrir litlu kaffihúsi í rými staðarins með því skilyrði að það sæist ekki frá götu. Vísir/Anton
Eigendur Nam á Laugavegi hafa staðið í stappi við Reykjavíkurborg síðan snemma í sumar. Staðurinn stendur klár en getur ekki opnað vegna vandræða með veitingaleyfið. Þannig er mál með vexti að staðurinn má ekki sjást frá götu samkvæmt skilyrði í veitingaleyfi rýmisins sem tilheyrir Around Iceland, ferðaskrifstofu í sama rými. Ferðaskrifstofan var með kaffihús í rýminu en leigði leyfið til Nam.

Skilyrðið er sett vegna ákvæða í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 um að veitingarekstur megi ekki fara yfir 30 prósent hlutfall af rýmum í borginni á miðborgarsvæði.

Emil hlakkaði mikið til að opna Nam á Laugavegi.Vísir
Alls kyns tillögur á lofti en ekkert gengur

Eigendur staðarins funduðu með skipulagsstjóra síðastliðinn mánudag og var þeim gert grein fyrir því að mál þeirra yrði meðhöndlað sem ný umsókn um veitingaleyfi.

„Við reyndum að andmæla því þar sem við erum þegar með rekstrar- og veitingaleyfi og það er í gildi næstu tíu árin. En þeir sögðust meðhöndla þetta sem nýja umsókn og að þarna ætti ekki að vera matur,“ segir Emil Helgi Lárusson, annar eigandanna.

Sjá einnig: Nam á Laugavegi alveg tilbúinn en má ekki opna

Reykjavíkurborg virðist því standa fast á þeirri skoðun að þarna eigi aðeins að standa verslun.

Hann segist hafa verið bjartsýnn og vonað það besta allan tímann en eftir fundinn á mánudag varð hann aðeins svartsýnni. Hann segist hafa lagt fram alls kyns tillögur til þess að uppfylla skilyrðið í veitingaleyfinu sem kveður á um að staðurinn megi ekki sjást frá götu og verði að vera innarlega í rýminu.

Nam stendur við Laugaveg 18b, rýmið hefur veitingaleyfi og eigendur töldu það nægja.Mynd/Facebook síða Nam
„Þeim fannst það ekki nóg. Við höfum verið að íhuga að færa staðinn innar og skoðað ýmsa möguleika. Meira að segja höfum við velt því fyrir okkur að fara með hann alveg innst, byggja leynivegg í kringum hann og fela þetta. Ég er búinn að láta teikna þetta og allt. Þetta lagði ég til á fundinum í síðustu viku en þeir sögðust ekkert geta sagt í rauninni.“

Annar fundur næsta þriðjudag

Skiltin á húsinu og merkingarnar í glugganum hafa aldrei verið til umræðu að sögn Emils. „Þeir hafa aldrei agnúast út í það í sjálfu sér. Verslanir í landinu mega skreyta glugga sína alveg eins og þeim sýnist, ef eigendur vilja auglýsa verslun sem er neðar í götunni mega þeir það. Eins ef þeir vilja auglýsa veitingastað sem er innar í rýminu.“

Hinsvegar segir Emil það sjálfsögðu ekki passa að hafa skilti og merkingar út á götuna ef stemningin verður að hafa Nam á Laugavegi einskonar leynistað.

Emil hefur verið kallaður á fund næsta þriðjudag og vonar hann að hann fái jákvæðar fréttir.

„Ég vona að þeir séu að leita lausna með okkur. Það hefur reyndar ekki verið upplifun síðustu mánuða en ég veit ekkert hvað kemur út úr næsta fundi. Við vonum bara það besta.“


Tengdar fréttir

Veitingastaðurinn Nam enn ekki verið opnaður

Veitingastaðurinn Nam á Laugavegi hefur enn ekki verið opnaður. Eins og Markaðurinn greindi frá fyrir hálfu mánuðum hefur staðurinn verið innréttaður. Byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar kom hins vegar í veg fyrir að staðurinn yrði opnaður. Hann benti á skilyrði frá skipulagsnefnd um að veitingasalan mætti ekki sjást frá framhlið hússins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×