Skoðun

#viðerumbrjáluð

Sara Líf Sigsteinsdóttir skrifar
Ungmennaráð UNICEF á Íslandi stendur nú fyrir átakinu Heilabrot og frumsýndi í gærkvöldi samnefnda stuttmynd í Bíó Paradís. Í myndinni fer fótbrotinn drengur í gegnum heilbrigðiskerfið eins og um barn með geðröskun væri að ræða. Hann kemur inn á bráðamóttöku og þarf á læknishjálp að halda en er sagt að koma aftur eftir nokkra mánuði. Þetta er veruleiki margra barna með geðrænan vanda.

Síðustu mánuði hefur ungmennaráðið unnið hörðum höndum að undirbúningi átaksins en markmið þess er að vekja athygli á úrræðaleysi í geðheilbrigðismálum barna og unglinga og vinna gegn fordómum. Það er þess vegna gaman að sjá hvað hefur farið af stað með #égerekkitabú-byltingunni.

Hugmyndin að Heilabrotum varð til þegar ein úr ungmennaráðinu kom fram og sagði frá reynslu sinni af þunglyndi. Eftir þessa sláandi frásögn fór boltinn að rúlla. Fleiri úr ráðinu áttuðu sig á því hvað þetta málefni snertir marga. Að lokum varð ljóst að ástandið í geðheilbrigðiskerfinu er óásættanlegt og við krefjumst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða strax.

Ef til staðar væri viðeigandi þjónusta fyrir börn með geðraskanir væri hægt að koma í veg fyrir óþarfa þjáningu, vanlíðan, brottfall úr framhaldsskóla, örorku og sjálfsvíg. Mörgum þessara ungmenna væri hugsanlega hægt að bjarga frá því að lenda í vanda síðar á ævinni með því að veita þeim viðeigandi aðstoð strax.

Ungmenni með geðraskanir finna oft fyrir neikvæðum viðhorfum frá öðrum. Fordómarnir eru miklir og hjálpa þeim síst við að ná bata. Stór hluti átaksins felur í sér að útrýma þessum fordómum.

Við leituðum til nemendafélaga framhaldsskóla um allt land eftir stuðningi við að vekja athygli á Heilabrotum og þessu mikilvæga málefni. Þau tóku okkur frábærlega og í dag verður myndin sýnd í framhaldsskólum víða um land. Samhliða átakinu vill ungmennaráð UNICEF á Íslandi hvetja alla til að deila reynslu sinni sem víðast og nota hash­töggin #heilabrot, #viðerumbrjáluð og #éger­ekkitabú. Við erum brjáluð yfir þessu ástandi og viljum tafarlausar breytingar!




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×