Skoðun

Ristilkrabbamein – tökum til hendinni

Jón Gunnlaugur Jónasson skrifar
Á Vesturlöndum er ristil- og endaþarmskrabbamein (hér eftir í greininni nefnt ristilkrabbamein) algengasta dánarorsök af völdum krabbameina sem ekki má beinlínis rekja til reykinga. Um 5% fólks í þessum heimshluta munu greinast með sjúkdóminn einhvern tímann á lífsleiðinni. Sjúkdómurinn er illvígur en í langflestum tilfellum læknanlegur, ef hann greinist snemma í sjúkdómsferlinu.

Á Íslandi er ristilkrabbamein þriðja algengasta krabbameinið hjá báðum kynjum og í öðru sæti í dánartíðni vegna krabbameins. Árlega hafa að meðaltali greinst hér á landi á undanförnum árum rúmlega 130 ný tilfelli af ristilkrabbameini og skráð eru árlega að meðaltali 52 dauðsföll af völdum sjúkdómsins. Það þýðir að einn Íslendingur deyr í viku hverri vegna ristilkrabbameins.

Árveknisátakið „Bleika slaufan“ stendur nú yfir og beinist athyglin sérstaklega að ristilkrabbameini, en þessi sjúkdómur herjar nokkuð jafnt á karla og konur. Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins greindist á árabilinu 2009-2013 að meðaltali 61 kona með ristilkrabbamein á ári hér á landi. Þetta eru tæplega 9% af öllum krabbameinum hjá konum. Meðalaldur þeirra við greiningu var 70 ár og 22 konur létust árlega úr þessum sjúkdómi. Í lok árs 2013 voru á lífi á Íslandi 550 konur sem einhvern tímann höfðu greinst með ristilkrabbamein.

Lykilatriði að greina sepa

Langflest (eða um 85%) ristilkrabbamein myndast út frá forstigsbreytingum, sem er ákveðin gerð ristilsepa, sem nefnast æxlissepar. Ef unnt er að greina og fjarlægja þessa sepa í tíma er hægt að koma í veg fyrir að þeir þróist í krabbamein. Lykilatriði er að greina þessa sepa og meðhöndla þá á viðeigandi hátt svo þeir ekki myndi ólæknandi sjúkdóm. Þetta gerist helst með góðu miðlægu utanumhaldi þar sem boðun einstaklinga í skoðun og viðeigandi rannsóknir er framkvæmd í samræmi við viðurkennda læknisfræði og kemur þannig í veg fyrir bæði of- og vanlækningar.

Ristilkrabbameini hefur við greiningu verið skipt niður í fjögur útbreiðslustig, sem spá fyrir um lífshorfur sjúklingsins. Á stigi I er sjúkdómurinn bundinn við ristilinn sjálfan og æxlið ekki vaxið djúpt niður í ristilvegginn. Á stigi IV eru hins vegar komin fjarmeinvörp, sem þýðir að æxlið hefur dreift sér um líkamann með meinvörpum til líffæra fjarri ristlinum. Stig II og III eru þar mitt á milli og tilgreina hvort æxlið sé vaxið út í gegnum vegglög ristils og/eða búið að sá sér í eitla í nærliggjandi vef.

Áætlað er að fimm ára lífshorfur sjúklinga sem greinast með ristilkrabbamein á stigi I séu um 90-95%, á stigi II um 55-80%, á stigi III um 35-60% og á stigi IV um 8-12%. Það skiptir því meginmáli að greina æxlin fljótt í sjúkdómsferlinu, ef sjúklingur á að eiga góða möguleika á lækningu.

Í gögnum Krabbameinsskrárinnar má sjá að ristilkrabbamein greinist oft þegar æxlið hefur náð stigi III eða IV. Á undanförnum árum hafa um 55% æxlanna greinst á þessum alvarlegustu stigum sjúkdóms og þar af upp undir 30% sjúklinga á stigi IV. Vel yfir helmingur þeirra sem greinast hefur því slæmar horfur og þarf gjarnan að ganga í gegnum mjög erfiða og einnig fyrir samfélagið dýra lyfjameðferð.

Ristilkrabbamein er mjög oft án einkenna þangað til það er komið á alvarlegra stig. Því er mikilvægt að uppgötva sjúkdóminn sem fyrst í sjúkdómsferlinu. Áætla má að nú séu um 2.000 Íslendingar annaðhvort með ógreint ristilkrabbamein, eða sepa sem munu þróast yfir í ristilkrabbamein á næstu 10-15 árum. Um 30% þessara einstaklinga, eða um 600, munu að óbreyttu greinast á stigi IV sem er illlæknanlegt, og um 800 þessara 2.000 sem greinast munu deyja úr sjúkdómnum.

Hefjum strax skipulagða miðlæga leit

Skimun fyrir ristilkrabbameini hefur mikið verið til umfjöllunar á Íslandi undanfarin ár, einkum á þessu ári. Góð rök hafa verið færð fram, bæði varðandi gagnsemi fyrir sjúklingana sjálfa og einnig hvað gæti borgað sig varðandi fjárútlát í heilbrigðiskerfinu. Ég ætla ekki hér að blanda mér í þá nokkuð flóknu umræðu sem varðar aðferðafræði við skimun, en vil þó leggja áherslu á að miðlæg stýring skimunar er nauðsynleg til að árangur geti verið mælanlegur, en slíkt er nauðsynlegt við allt mat á gagnsemi og árangri.

Þar sem dregist hefur í mörg ár að taka ákvörðun um að hefja miðlæga skipulagða leit að ristilkrabbameini hefur hafist óskipuleg leit, sem ekki skilar nærri nógu miklum árangri, einkum vegna þess að ekki er unnt að fylgjast vel með hverjir hafi farið í rannsókn og hverjir ekki. Í heildina er slíkt allt of dýrt og erfitt að fylgjast með árangri í slíkri baráttu við sjúkdóminn.

Hefjum því strax skipulagða miðlæga leit að þessu illvíga meini og spörum með því mannslíf og fjármuni.




Skoðun

Sjá meira


×