Skoðun

Aðkoma almennings að fjárlögum – ódýr og einföld leið

Einar Guðmundsson skrifar
Lýðræðislega sinnaðir stjórnmálamenn eru sífellt að leita leiða til að rödd almennings heyrist betur í sem flestum málaflokkum. Þó hafa margir þeirra lýst því yfir að þjóðaratkvæði um fjárlög sé ekki heillavænlegt og er þá gjarnan Kalifornía nefnd sem nýlegt dæmi um vafasamar afleiðingar. Það eru ýmis rök fyrir því að fjárlög henti illa til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslna. Hins vegar gildir annað um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hér á eftir er bent á auðvelda og ódýra leið til að fá fram ósk almennings/skattgreiðanda um það hvernig þeir vilja að skattgreiðslum þeirra sé best varið. Þetta má gera á þann hátt að í lok hverrar skattskýrslu sé skattgreiðandinn spurður örstutt um hvernig hann vilji að skattgreiðsla hans skiptist á milli helstu málaflokka á fjárlögum og þá gjarnan í prósentum talið. Málaflokkarnir væru listaðir upp fyrirfram. Þannig gæti skattgreiðandi til dæmis sagt: Heilbrigðismál 40%, Menntamál 20%, Dómsmál 15% o.s.frv.

Þar sem um rafrænar skattskýrslur er að ræða, í nær öllum tilfellum, ætti að vera auðvelt fyrir skattstjóra að láta forrit lesa sjálfkrafa úr þessum upplýsingum og birta síðan niðurstöðurnar opinberlega.

Vegna þess að ekki er um bindandi kosningu að ræða, heldur ósk skattgreiðanda, geta stjórnvöld ráðið fjármögnun hinna ýmsu málaflokka eins og áður, stjórnvöld hafa því áfram lokaorðið.

Stjórnvöld rökstyðji

Lýðræðið gerir hins vegar alltaf þær kröfur á stjórnvöld að rökstyðja það vandlega, þegar gengið er gegn vilja almennings. Segjum svo að málaflokkur eins og menntun sé skv. niðurstöðu skattframtala að meðaltali 30% skv. vilja skattgreiðanda, en stjórnvöld ákveða annað , t.d. 25%, eða 35%. Það er þá skylda stjórnvalda að útskýra/rökstyðja fyrir skattgreiðendum hvers vegna ráðgjöf þeirra upp á 30% var hafnað o.s.frv.

Ef þessi leið verður farin munu stjórnvöld alltaf vita við gerð fjárlaga hver afstaða skattgreiðenda er til hinna ýmsu málaflokka. Sé almenningur á villigötum að mati stjórnvalda eru hæg heimatökin að útskýra villurnar og væntanlega mun sá rökstuðningur skila sér í breyttri niðurstöðu við skil á næstu skattskýrslu. Þannig lærir almenningur af stjórnvöldum og stjórnvöld af almenningi. Það hlýtur að teljast lúxus fyrir íslensk stjórnvöld við fjárlagagerð að hafa alltaf nýjar tölur um hvað almenningur vill um skiptingu þjóðarkökunnar.




Skoðun

Sjá meira


×