Fastir pennar

Ögurstund íslenskunnar

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Í síðustu viku vakti athygli viðtal hjá RÚV við Úlfar Erlingsson, yfirmann tölvuöryggisrannsókna hjá Google, en íslenskir starfsmenn þess fyrirtækis hafa séð til þess að íslenskan er eina litla tungumálið í heimi sem komið hefur verið fyrir í máltæknigrunni þar.

Við eigum í vændum umhverfi og viðmót véla þar sem talað mál verður í æ ríkara mæli notað. Þegar fram líða stundir segjum við bílnum hvert hann eigi að fara, ryksugunni að fara að ryksuga – og hætta því – tölvunni að senda tölvupóst og auðvitað símanum að hringja.

Haldi Íslendingar vöku sinni geta þeir búið til máltæknigrunn, eins og þegar er vísir að hjá Google, svo að hægt sé að notast við íslensku í samskiptum við hvers kyns vélar og tækni á nýrri öld. Þetta kostar um milljarð króna, á tíu árum að sögn vísindamanna; þekkingin er til. Haldi Íslendingar ekki vöku sinni gæti komið til þess fyrr en síðar að íslenskan deyi út sem lifandi tungumál.

Eina þjóðin í heimi …

Íslendingar eru eina þjóðin í heimi sem talar íslensku. Hætti þeir því einn góðan veðurdag hverfur jafnframt heill menningarheimur. Það er ekki einkamál Íslendinga að varðveita þetta tungumál – en engin önnur þjóð getur gert það.

Menningararfur snýst ekki bara um gömul hús og ásýnd bæja; hann snýst heldur ekki bara um þekkingu á aflögðum amboðum, gömlum vinnubrögðum og handverki liðinna tíma; hann snýst ekki bara um gamla báta, gamla hnúta, gamla bragarhætti, gamla matargerð; allt er þetta að vísu mikilsvert og allt þarf þetta varðveislu og alúð, en varðveisla íslenskrar tungu á tækniöld snýst ekki um hið aflagða heldur hið óséða. Þetta snýst um að menningin lifi af á tímum mikilla og stórfelldra breytinga á tækni og lífsmáta.

Íslensk tunga þarf að nýtast á okkar dögum en á ekki að vera safngripur, eins og viðskiptaráð stakk upp á í frægri endemisskýrslu. Íslensk tunga á ekki að vera vel fáguð og snoturlega fyrirkomið á fallegum stað bak við gler á safni. Hún á að vera í spjaldtölvunni og skjásímanum, á bílaverkstæðunum, hárgreiðslustofunum, íþróttavöllunum og skólalóðunum, í umferðinni, í músíkinni, í myndlistinni. Hún á ekkert endilega að vera hrein og gljáandi; það má ruglast í meðferð þágufalls og viðtengingarháttar og það má grípa til útlenskra orða og orðatiltækja til að skýra hugsun. Það má leika sér með málið – til þess er það.

Guðmundur Andri segir að íslenskan eigi ekki að vera safngripur heldur eigi hún að vera hluti af okkar daglega lífi og nýjustu tækni.NordicPhotos/Getty
Íslenskan er ekki útlenska og hún er ekki latína. Hún er lifandi mál en ekki dautt, opið kerfi en ekki lokað, lífheild en ekki dauður hlutur. Hún verður til í heilabúum, í hugsunum og hugmyndum, streymir svo fram úr puttum og í munni okkar sem hana notum en er ekki sótt inn í skáp með hvítum hönskum til að skoða varlega undir útfjólubláu ljósi; íslenskan er í sífelldri sköpun okkar sem hana notum og daginn sem hún verður endanleg er hún dauð.

Daglegt mál

Íslenskan þarf að vera mál sem við notum án þess að hugsa okkur um og án þess að setja okkur í einhverjar sérstakar stellingar. Eigi íslenskan að lifa þarf hún að vera daglegt mál. Hún hentar vel til þess. Þetta forna mál hefur lifað af ýmsar atlögur vegna þess að það er þjált og frjósamt, tekur við, lagar að kerfi sínu orð – og lagar kerfi sitt að nýjum veruleika.

„Ótrygg er ögurstundin“, segir eitt af þessum gömlu orðatiltækjum sem við sækjum til náttúrunnar – „ögurstundin“ er andartakið milli flóðs og fjöru, en táknar líka úrslitastund. Nú þegar er allt umhverfi okkar, og þá sérstaklega unga fólksins, mjög enskuskotið, við verðum æ meira vör við enska hugsun sem stundum er þýdd með erfiðismunum á íslensku og þannig mætti áfram telja. Ef til vill ræður þetta mál – hvort okkur verði gert kleift að eiga í samskiptum við vélar framtíðarinnar á íslensku – úrslitum um það hvort sú gamla lifir af á nýrri öld.

Menntamálaráðherra hleypti nýlega af stokkunum átaki til að efla lestur og læsi hjá ungu fólki. Það er ágætt. Reyndar veit ég ekki hvort það er í verkahring ráðherra að hlutast til um það hvort kennt skuli að lesa með bandprjóns­aðferðinni eða einhverjum öðrum aðferðum – mér er nær að halda að það skipti litlu máli hvaða tækni sé notuð til að kenna krökkum að lesa – svo lengi sem þess er gætt að halda að þeim bókum, lesa fyrir þau af bókum eins mikið og mögulega er hægt; væri þess vegna hægt að kenna þeim standandi á haus; bara ef maður les og les og les fyrir þau – þá læra þau að lesa nánast af sjálfu sér og verða handgengin bókum. En góður er vilji ráðherra og óskandi að átaki hans fylgi vitundarvakning meðal landsmanna í þessum efnum.

En stóra málið er líka þetta: að sjá til þess að Íslendingar noti málið daglega og í nánasta umhverfi sínu. Þar vantar enn nokkuð upp á, þó að á nýjustu fjárlögum sé að vísu gert ráð fyrir 30 milljónum króna til verkefnisins, sem sýnir vissan skilning stjórnvalda á því að hér sé um að ræða brýnt úrlausnarefni.

En betur má ef duga skal.






×