Viðskipti innlent

Forstjóri ISAL: Aukin verktaka hefur áhrif á þrjátíu til fjörtíu störf

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Rannveig Rist
Rannveig Rist vísir/gva
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, hefur sent starfsmönnum fyrirtækisins bréf til að útskýra afstöðu fyrirtækisins í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir.

Yfirvinnubann starfsmanna álversins í Straumsvík hófs síðustu mánaðamót og stendur enn yfir. Ekkert hefur þokast í kjaraviðræðunum síðan þá. Nái ekki að semjast fyrir 1. september næstkomandi hefst verkfall í álverinu.

Rannveig byrjar bréfið á að segja að eftirminnilegasta bréf sem hún hafi skrifað starfsfólkinu hafi verið bréf frá 14. nóvember 2008 þar sem hún tilkynnti að ákveðið hefði verið að greiða ein og hálf mánaðarlaun til starfsmanna aukalega í kjölfar kreppunnar. Tilefnið nú væri hins vegar ekki eins ánægjulegt.

„Fyrr í sumar hafnaði samninganefnd starfsmanna stuttum kjarasamningi, þrátt fyrir að umtalsverð launahækkun sé í boði. [...] Mun tilboðinu meðal annars hafa verið hafnað vegna kröfu fyrirtækisins um að mega bjóða fóðrun kera út á almennum markaði,“ segir í bréfinu.

Hún segir að ISAL fari fram á að hafa svipað svigrúm og önnur fyrirtæki á Íslandi til að bjóða út tiltekna þætti í rekstrinum. Ekkert annað fyrirtæki búi við jafn þröngan kost þegar kemur að því og ISAL. Hún segir einnig að sá þáttur sem fyrirhugað sé að bjóða út snerti 30-40 störf en ekki 80-120 líkt og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum.

Hún segir staðreynd að ISAL greiði hærri laun en gengur og gerist fyrir sambærileg störf á landinu. Meðallaun verkamanna á liðnu ári hafi verið 475.000 krónur á mánuði og þá er yfirvinna, orlof og desemberuppbót ekki talin inn í dæmið. Enn fremur verði að taka með í reikninginn að á árunum 2012 og 2013 hafi fyrirtækið tapað alls sjö milljörðum króna og staða á álmörkuðum sé almennt slæm.

„Allt ofangreint felur í sér sterk og málefnaleg rök fyrir því að ISAL ætti að þessu sinni að bjóða kauphækkanir sem taka mið af fjárhagsstöðu fyrirtækisins og stöðu áliðnaðarins,“ skrifar Rannveig og bætir við að stjórnendur fyrirtækisins hafi fengið að meðaltali 2,95% launahækkanir á þessu ári.

Þrátt fyrir það sé fyrirtækið til viðræðna um áþekkar launahækkanir og aðrir aðilar á Íslandi hafa samið um það sem af er ári.

„Vinnustöðvanir fela í sér óvissu og aukið álag. Það er hætt við að hugurinn verði annars staðar en við hin daglegu störf. Á óvissutímum sem þessum er því sérstaklega mikilvægt að sýna fyllstu árvekni og aðgæslu,“ segir Rannveig í niðurlagi bréfsins.


Tengdar fréttir

Starfsmenn hræðast afstöðu Rio Tinto

Nokkrar undanþágur hafa verið veittar á yfirvinnubanni starfsmanna álversins í Straumsvík um helgina tryggja öryggi og að ekki verði tjón á búnaði eða framleiðslu.

Krafa um aukna heimild til verktöku lögð til hliðar

Forgangskrafa stjórnenda álversins í Straumsvík um aukna heimild til verktöku verður lögð til hliðar á meðan launakjör starfsmanna verða rædd. Þetta var ákveðið á fundi hjá Ríkissáttasemjara í dag. Annar fundur er boðaður á morgun.

Slökkt á kerskálanum ef það kemur til verkfalls

Stjórnendur álversins í Straumsvík segja að slökkva verði á kerskála í verksmiðjunni ef kemur til verkfalls starfsmanna eftir rúman mánuð en yfirvinnubann hefst þar á föstudag. Ef slökkt verði á kerskálanum jafngildi það að fyrirtækinu verði lokað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×