Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður ónýtur í núverandi mynd að mati AGS

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Íbúðalánasjóður í núverandi mynd er ónýtur og stjórnvöld ættu að stöðva nýjar lánveitingar sjóðsins og láta hann einbeita sér að því að gera upp skuldir sínar áður en nýtt fyrirkomulag húsnæðismála er tekið upp. Þetta er mat sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er nú hér á landi í tengslum við sjöttu eftirfylgni við efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og sjóðsins. Í yfirlýsingu sjóðsins segir að samkomulag þurfi að nást um nýja stefnu í húsnæðismálum og láta lánasafn Íbúðalánasjóðs renna út. Hugsunin á bak við þetta er að sjóðurinn veiti engin ný lán og sinni aðeins núverandi viðskiptavinum þar til líftíma eigna og skulda er lokið.

„Viðskiptamódel Íbúðalánasjóðs er brostið. Ég held að það sé viðurkennt að það sé brostið. Það sem við eigum við með því er að Íbúðalánasjóður ætti að hætta útlánum. Hann ætti að gera upp lán sín og skuldir með tímanum. Um leið er mjög mikilvægt að einhver stofnun eða áætlun komi í staðinn,“ segir Peter Dohlman formaður sendinefndar AGS fyrir Ísland.

Vandamálið er hins vegar að engin stefna liggur fyrir um hvað komi í staðinn fyrir Íbúðalánasjóð. Skýrsla um framtíðarskipan húsnæðismála var kynnt í maí 2014. Ekkert frumvarp um framtíðarmálefni Íbúðalánasjóðs hefur komið frá félags- og húsnæðismálaráðherra eins og boðað hafði verið eftir að skýrslan kom út.

Starfsemi sjóðsins hefur nú þegar dregist mikið saman. Að sögn Sigurðar Erlingssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra hafa lánveitingar sjóðsins dregist saman um þriðjung á hverju ári undanfarin fjögur ár. Síðustu mánuði hefur sjóðurinn verið að lána mjög lítið. Sigurður, sem lét af störfum um síðustu mánaðarmót, sagði að skýringin væri aðallega hörð samkeppni um lánveitingar frá bönkunum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×