Viðskipti innlent

Starfsmönnum Kauphallar í Svíþjóð þóttu mikil viðskipti Kaupþings með eigin bréf sérkennileg

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Baldur Thorlacius var starfsmaður viðskiptaeftirlits Kauphallar Íslands á ákærutímabilinu sem nær frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008.
Baldur Thorlacius var starfsmaður viðskiptaeftirlits Kauphallar Íslands á ákærutímabilinu sem nær frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008. Mynd/Ingólfur Júlíusson
Baldur Thorlacius, fyrsta vitnið í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, kom fyrir dóminn í dag. Baldur var starfsmaður viðskiptaeftirlits Kauphallar Íslands á ákærutímabilinu sem nær frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008. Hann byrjaði á því að fara almennt yfir það hvernig eftirlitinu var háttað. Nefndi hann sérstaklega viðvörunarbjöllur sem fara í gang þegar eitthvað gerist á markaði sem gæta þurfi að.

Saksóknari, Björn Þorvaldsson, bar undir hann nokkrar bjöllur sem hringdu á árinu 2008 vegna viðskipta Kaupþings í Kauphöllinni. Við bjöllu sem hringdi þann 11. september hafði Baldur skrifað eftirfarandi:

„Verðið keyrt upp um og yfir 2% í nokkrum viðskiptum. Fyrst kaupa eigin viðskipti, svo tilkynnir miðlun Kaupþings tiltölulega stór viðskipti. Svo keyrir TLS hjá SCA verðið upp enn meira. Full kröpp hækkun en ekkert ólög- og/eða reglubrot í fljótu bragði. Setjum watch.”

Ræddu við sænska kollega 

Baldur var svo spurður út í tvær bjöllur sem hringdu þann 2. október, sex dögum áður en Kaupþing féll. Við seinni bjölluna skrifar Baldur:

„Eigin viðskipti sterk á kauphliðinni eins og oft áður. Er til skoðunar.”

Spurður út í þetta sagði Baldur að eftirlitið í Kauphöllinni hafi þarna nokkra daga á undan byrjað að fylgjast með kaupum eigin viðskipta Kaupþings í hlutabréfum bankans. Saksóknari spurði hann nákvæmlega hvenær kaup eigin viðskipta fóru að vekja athygli Kauphallar.

„Það var síðla sumars 2008 án þess að við höfum talið á þeim tíma að þetta væru lögbrot. Við fórum svona aðeins að fylgjast með þessu. Svo í september 2008 fórum við að skoða þetta nánar. Við vorum að ræða þetta við kollega okkar í Stokkhólmi því Kaupþing var líka á markaði þar. [...] Í samtali við starfsmenn þar fengust þær upplýsingar að það var svipuð þróun á þeim markaði og þeir væru að skoða þetta líka þar.”

Baldur sagði að starfsmönnum kauphallarinnar í Stokkhólmi hafi þótt há hlutdeild eigin viðskipta Kaupþings með bréf í bankanum sérkennileg og sérkennilegra var að þetta væri að gerast á báðum mörkuðum. Í seinni hluta september hafi starfsemi eigin viðskipta bankanna verið komin í ákveðið úttektarferli hjá Kauphöllinni á Íslandi.

Sendi Fjármálaeftirlitinu bréf

Björn spurði Baldur sérstaklega út í bréf sem hann sendi fyrir hönd Kauphallarinnar til Fjármálaeftirlitsins 2011 vegna kaupa viðskiptabankanna Kaupþings, Glitnis og Landsbankanum á eigin hlutabréfum fyrir hrun.

Í bréfinu kemur meðal annars fram að þegar almennur söluþrýstingur hafi verið á mörkuðum, bæði hér heima og erlendis, og neikvæðar fréttir voru á markaði þá „allt að því einokuðu eigin viðskipti bankanna kauphlið tilboðabókar eigin félags. Slíkur kaupþrýstingur getur eðli málsins samkvæmt haft talsverð áhrif á verðmyndun hlutabréfanna.”

Saksóknari bað Baldur um að útskýra þetta nánar og vísaði hann þá til þess að þarna væri hugsanlega verið að auka eftirspurn eftir hlutabréfunum sem hefði það í för með sér að verðið hækkaði.

„Kannski vísbending um markaðsmisnotkun”

Í bréfinu er minnst sérstaklega á tímabilið frá 29. september til 3. október 2008 en ríkið tók Glitnir yfir 29. september. Segir að söluþrýstingur á Kaupþingsbréfum hafi verið hvað mestur á þessum tíma en eigin viðskipti bankans hafi þó verið mjög virk í að kaupa bréf í bankanum.

„Þar að auki vekur athygli að fyrstu tvo dagana eftir að tilkynnt var um kaup ríkisins á Glitni hafi verð á hlutabréfum Kaupþings lækkan minna heldur en verð hlutabréfa fjármálafyrirtækja á Norðurlöndum almennt.”

Sagði Baldur aðspurður að þetta væri „kannski vísbending um markaðsmisnotkun.”

Þó er tekið fram í bréfinu „að þátttaka eigin viðskipta bankanna í tilboðabókum sinna félaga var einnig umtalsverð á fyrrihluta ársins.” Saksóknari spurði hvort sérstaklega hafi verið fylgst með því hjá Kauphöllinni en sagði Baldur að svo hefði ekki verið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×