Fótbolti

Sevilla-liðið í frábærum málum í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bakvörðurinn Aleix Vidal var maður leiksins hjá Sevilla.
Bakvörðurinn Aleix Vidal var maður leiksins hjá Sevilla. Vísir/Getty
Meistarar Sevilla eru komnir með annan fótinn inn í sinn annan úrslitaleik í röð í Evrópudeildinni eftir 3-0 heimasigur í fyrri undanúrslitaleik sínum á móti Fiorentina frá Ítalíu.

Það er miklu meiri spenna í hinni viðureigninni eftir að Napoli og Dnipro Dnipropetrovsk gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leik sínum á Ítalíu. Rafael Benítez og lærisveinar hans í Napoli voru þó mjög ósáttir með jöfnunarmarkið sem kom tíu mínútum fyrir leikslok.

Úrslit kvöldsins þýða þó að það eru mjög litlar líkur á að það verði ítalskur úrslitaleikur en spilað verður til úrslita í Evrópudeildinni í Varsjá 27. maí næstkomandi.

Bakvörðurinn Aleix Vidal var maður leiksins í 3-0 sigri Sevilla en hann skoraði tvö fyrstu mörk Sevilla-liðsins og lagði síðan upp það þriðja fyrir varamanninn Kévin Gameiro.

Napoli var yfir í hálftíma en fékk á sig dýrkeypt jöfnunarmark tíu mínútum fyrir leikslok. Það var reyndar rangstöðulykt af markinu og Ítalirnir voru ekki sáttir.

David López kom Napoli yfir á 50. mínútu en varamaðurinn Yevhen Seleznyov jafnaði metin á 80. mínútu aðeins mínútu eftir að hann kom inná sem varamaður.

Denys Boyko, markvörður Dnipro, stóð sig frábærlega í markinu og varði meðal annars mörgum sinnum úr dauðafærum frá Gonzalo Higuain.

Sevilla vann Evrópudeildin í fyrra eftir sigur á Benfica í vítakeppni í úrslitaleiknum en Sevilla-menn slógu þá Valencia út úr undanúrslitnum.

Aleix Vidal skoraði mörkin sín á 17. og 52. mínútu leiksins en þriðja marki skoraði síðan Kévin Gameiro á 75. mínútu eða aðeins mínútu eftir að honum var skipt inn á völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×