Enski boltinn

Carragher: Rodgers er rétti maðurinn fyrir Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brendan Rodgers nær ekki titli og líklega ekki Meistaradeildarsæti.
Brendan Rodgers nær ekki titli og líklega ekki Meistaradeildarsæti. vísir/getty
Jamie Carragher, fyrrverandi miðvörður Liverpool sem starfar sem sparkspekingur Sky Sports, telur að Brendan Rodgers sé áfram rétti maður fyrir Liverpool.

Ólíklegt er að Liverpool komist í Meistaradeildina, ári eftir að liðið lenti í öðru sæti úrvalsdeildarinnar, og þá tapaði það gegn Aston Villa í undanúrslitum enska bikarsins síðastliðinn sunnudag.

Rodgers keypti sjö leikmenn síðasta sumar, að stærstum hluta fyrir tekjurnar af sölu Luis Suárez, en frammistaða þeirra hefur verið misjöfn.

„Er Rodgers rétti maðurinn? Það held ég,“ segir Carrager. „Framtíð hans á ekki að velta á einum leik. Þetta hefur verið erfitt með þá leikmenn sem liðið fékk, en mér finnst margir þeirra ekki enn komist í takt við liðið.“

Carragher segir næsta sumar mikilvægt fyrir Liverpool ætli það að taka næsta skref; vinna titil og enda aftur á meðal fjögurra efstu liðanna í úrvalsdeildinni.

„Rodgers verður að ákveða hvar hann vill styrkja liðið. Grunnurinn er þarna eftir viðbæturnar síðasta sumar,“ segir Carragher.

„Hann verður að kaupa réttu mennina og takist það mun það breyta öllu. Ef það tekst ekki verður Liverpool í sömu vandræðum á næstu leiktíð,“ segir Jamie Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×