Enski boltinn

Henderson búinn að skrifa undir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Henderson verður áfram í rauðu næstu árin.
Henderson verður áfram í rauðu næstu árin. Vísir/Getty
Liverpool staðfesti í dag að miðjumaðurinn Jordan Henderson, sem er 24 ára gamall, sé búinn að skrifa undir nýjan langtímasamning við félagið.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum er um að ræða fimm ára samning sem tryggir Henderson 100 þúsund pund í vikulaun - jafnvirði rúmra 20 milljónum króna.

Raheem Sterling greindi nýverið frá því að hann hafnaði samskonar samningi frá félaginu og eru viðræður hans um nýjan samning nú í uppnámi.

Jordan Ibe og Martin Skrtel eru þó á góðri leið með að semja upp á nýtt við félagið og þá hafa þeir Philippe Coutinho og Daniel Sturridge gengið frá sínum málum.

Líklegt er að Henderson taki við fyrirliðabandi Liverpool þegar Steven Gerrard yfirgefur félagið í sumar og fer til LA Galaxy í Bandaríkjunnum. Henderson hefur í vetur skorað sjö mörk í 55 leikjum fyrir bæði Liverpool og enska landsliðið.

„Ég hef virkilega mikla trú á því að við getum á næstu árum getum við gert áhlaup og byrjað að vinna titla,“ sagði Henderson en um síðustu helgi féll Liverpool úr leik í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.

„Ég er himinilifandi með að þessu máli sé loksins lokið. Það eru frábærar fréttir fyrir mig að hafa skuldbundið mig hér til framtíðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×