Körfubolti

Hrafn: Held það verði breytingar í útlendingamálum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bikarmeistarar Stjörnunnar í Dominos-deild karla í körfubolta stukku á einn heitasta íslenska bitann á markaðnum í gær þegar liðið samdi við skyttuna Tómas Heiðar Tómasson.

Eftir að reglur um erlenda leikmenn voru hertar fyrir tveimur árum og aðeins einn Kani leyfður og enginn Bosman-leikmaður hefur gildi góðra íslenska leikmanna margfaldast.

Margir innan hreyfingarinnar búast við því að Bosman-leikmenn verði leyfðir á næsta ársþingi, enda tæpt að það standist almenna löggjöf að meina þeim um atvinnu á Íslandi.

„Ég hef skilning á sjónarmiðum beggja en eftir síðasta tímabil var maður á því að þessa breytingu þurfi að gera. Ekki síst vegna þess að ég er ekki viss um að þetta standist regluverk Evrópu um að hefta atvinnuflæði evrópskra einstaklinga,“ segir Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, við Vísi.

„Fyrsta árið eftir að reglurnar tóku gildi fannst mér gæðin í deildinni ekki mikil. Það verður tekist á um þetta á þinginum og ég hef trú á því að sjónarmið þeirra sem vilja óbreytt ástand séu örlítið sterkari núna.“

„Gæðin eru meiri og við erum að sjá yngri stráka fá tækifæri og komast erlendis eins og Dag Kár hjá okkur. Þetta verður beggja blands en ég skal hreinlega játa það að ég er ekki búinn að gera upp hug minn,“ segir Hrafn.

Landsbyggðarliðin vilja flest hver fá Bosman-leikmennina inn svo auðveldara sé fyrir þau að manna sín lið með gæðaleikmönnum. Það hefur lengi þótt erfitt að fá góða íslenska leikmenn af höfuðborgarsvæðinu til að spila úti á landi.

„Ég get skrifað undir það [að þetta sé mikilvægt fyrir landsbyggðarliðin]. Lið eins og KFÍ hefði svo sannarlega gagnast þessi regla. Þar erum við með félag sem stendur vel en hendur þess eru bundnar og það nær ekki að nýta það sem það hefur til að tefla fram eins sterku liði og það getur. Það er því vissulega sjónarmið,“ segir Hrafn. „Við myndum örugglega fá víðari flóru af sterkum liðum ef þessi regla væri í gildi.“

Hrafn játar því að gæðin í deildinni verða meiri með fleiri erlendum leikmönnum. „Spilamennskan verður eflaust betri. Það er ekki spurning. Ég er svolítið hoppandi á milli. Það eru líka til leikmenn sem ég hugsa að hefðu ekki fengið sömu tækifæri hefðu sömu reglur væru í gildi. Ég held það verði breytingar ef ég ætti að giska,“ segir Hrafn Kristjánsson.


Tengdar fréttir

Tapið í Njarðvík ekki endapunktur

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, fékk liðsstyrk í gær þegar félagið samdi við Tómas Heiðar Tómasson. Íslenskir leikmenn eru gulls ígildi þar sem aðeins einn erlendur leikmaður er leyfður. Gæðin í deildinni eru meiri núna en í fyrra á fyrsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×