Viðskipti innlent

Óttast að hluthafar HB Granda flýðu ef arðgreiðslunum yrði breytt

Birgir Olgeirsson skrifar
Kristján Loftsson.
Kristján Loftsson. Vísir/Anton
Ekki kemur til greina að draga til baka ákvörðun um tæplega þriggja milljarða arðgreiðslu og þriðjungshækkun á þóknun stjórnarmanna til baka hjá útgerðarfyrirtækinu HB Granda. Þetta sagði Kristján Loftsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í kvöld.

Vísir.is greindi frá því fyrr í dag að mikill hiti sé í fiskverkafólki hjá HB GRanda vegna þessarar ákvörðunar en Kristján sagði við RÚV í kvöld að arðgreiðslurnar væru samkvæmt sömu stefnu í áratug.

Sjá einnig:Sýður á starfsfólki HB Granda

„Hvað varðar stjórnarlaunin á voru þetta 150 þúsund í fyrra, þetta hefur verið tiltölulega lágt hjá HB Granda, og hækkuðu þarna upp í 200 þúsund. Það var gerð tillaga sem allir samþykktu á aðalfundi. Ég held að það sé ekkert óhóf í þessu að mínu mati og ef þú færir yfir listann í þessu í Kauphöllinni þá held ég að Grandi sé í einu af neðstu sætunum,“ sagði Kristján.

Hann sagði útilokað að fyrirtækið breyti stefnu sinni varðandi arðgreiðslur í ljós samfélagsaðstæðna. „Nei, ég held að hluthafarnir myndu flýja margir hverjir,“ sagði Kristján og sagði lífeyrissjóðina eflaust ekki óánægða með þessar arðgreiðslur.

Þegar hann var spurður hvort þessi ákvörðun boði ekki gott fyrir starfsfólk HB Granda og kjaraviðræður sagðist hann ekki vita það og geta engu lofað. „Það var einn sem var mikill forkólfur fyrir sjómenn hér í gamla daga, hann var spurður að því hvort hann væri ekki ánægður með þessa samninga: „Ég var aldrei ánægður með það sem ég fæ,“ hafði Kristján eftir forkólfinum í fréttum RÚV.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.