Viðskipti innlent

Telja afnám tolla myndi spara neytendum tíu milljarða á ári

ingvar haraldsson skrifar
Kostnaður við matarinnkaup myndi lækka um 76 þúsund krónur á ári fyrir meðalfjölskylduna við afnám tolla á matvæli að mati Viðskiptaráðs Íslands.
Kostnaður við matarinnkaup myndi lækka um 76 þúsund krónur á ári fyrir meðalfjölskylduna við afnám tolla á matvæli að mati Viðskiptaráðs Íslands. vísir/gva
Afnám tolla á matvæli myndi spara meðalfjölskyldunni 76 þúsund krónur í matarútgjöld á ári sem jafngildir 10 milljarða sparnaði fyrir íslenska neytendur. Þetta er mat Viðskiptaráðs Íslands á áhrifum afnáms tolla á matvæli.

Þá bendir Viðskiptaráð á að um 40 prósent af matvælaútgjöldum íslenskra heimila megi reka til vörutegunda þar sem tollvernd sé við lýði. Tollverndin nemi allt að 160 prósent álagi á innflutningsverð. „Mest er tollverndin þegar kemur að mjólkurtengdum afurðum og kjöti. Afleiðingin er sú að hérlendis er lítið flutt inn af þessum vörutegundum samanborið við í nágrannalöndunum,“ segir í áliti Viðskiptaráðs.

Einnig er bent á að þær vörutegundir sem njóti tollverndar séu allt að 59% dýrari hér á landi miðað við verð erlendis. Þetta sé þrátt fyrir umtalsverða framleiðslustyrki sem falla til framleiðenda. Tveir vöruflokkar standast þó samanburð við verðlag erlendis, en það er lambakjöti og mjólk. „Afnám tolla á lambakjöt myndi því ekki hafa áhrif til lækkunar vöruverðs hérlendis. Þá er mjólk hérlendis niðurgreidd með skattfé um sem nemur um 35% af útsöluverði og því eru takmarkaðar forsendur fyrir alþjóðlega framleiðendur að keppa á innlendum mjólkurmarkaði,“ er útskýrt í áliti Viðskiptaráðs.

Garðyrkjan skilar ein jákvæðri afkomu

Þá bendir Viðskiptaráð á að eini geirinn innan landbúnaðarins sem skili jákvæðri rekstaraðkomu , að teknu tilliti framleiðslustyrkja sé garðyrkja. Við upphaf aldarinnar voru tollar á grænmeti felldir niður og styrkjafyrirkomulagi greinarinnar breytt. Eftir breytingarnar lækkaði útsöluverð afurða um allt að 45 prósent.

„Þrátt fyrir umtalsverðar verðlækkanir á grænmeti í kjölfar breytinganna hefur greinin staðið þær af sér og gott betur. Að mati Viðskiptaráðs er þetta dæmi um að aukin samkeppni gagnast ekki einungis neytendum heldur einnig þeim sem stunda rekstur,“ segir í áliti Viðskiptaráðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×