Skoðun

Kjósum Guðrúnu Nordal sem rektor Háskóla Íslands 13. apríl

Þórarinn Guðjónsson skrifar
Háskóli Íslands er einn af hornsteinum íslensks samfélags og sú menntastofnun sem tengir saman þjóðfélagslega og vísindalega umræðu í landinu. Íslenskt þjóðfélag leggur mikið traust á að skólinn sjái okkur fyrir menntuðum starfskrafti sem stuðlar að betra samfélagi, aukinni þekkingar- og nýsköpun og þar með auknum hagvexti. Það er því mikilvægt að rektor Háskóla Íslands geti talað til íslensku þjóðarinnar og nái að efla samtakamátt ólíkra fræða og vísinda. Rektorskjör við Háskóla Íslands er því stórt mál fyrir íslenska þjóð. Í framboði eru þrír mjög hæfir einstaklingar, Einar Steingrímsson prófessor við Strathclyde-háskóla í Glasgow, Jón Atli Benediktsson, prófessor og rektor vísinda við HÍ og Guðrún Nordal, prófessor við HÍ og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ég er meðal þeirra fjölmörgu sem telja að Guðrún Nordal sé sá frambjóðandi sem standi fremst meðal jafningja og að hún muni verða glæsilegur og farsæll leiðtogi skólans verði hún kjörin rektor 13. apríl n.k.

Endurnýjunar er þörf

Það er eðli háskóla að þeir þurfa að vera í stöðugri þróun og það krefst þess að með reglulegu millibili sé skipt um stjórnendur þannig að ferskir vindar leiki um skólann sem knýi áfram breytingar og hamli gegn stöðnun. Það hefur ýmislegt gott verið gert við Háskóla Íslands undanfarin ár en annað ekki. Það er kominn tími á endurnýjun í yfirstjórn Háskólans og ég tel að Guðrún Nordal komi með ferska vinda sem muni leiða til betri starfsanda og framfara í vísindum og kennslu.

Það hefur legið fyrir lengi að háskólastigið er undirfjármagnað. Stjórnvöld hafa viðurkennt vandann og sýnt vilja til að laga þetta. Kosningar til rektors Háskóla Íslands 2015 snúast að mörgu leiti um eftirfarandi tvö atriði: 1) Viljum við breyta til og hleypa nýju fólki að eða erum við sátt við hlutina eins og þeir eru? 2) Hvaða frambjóðandi er líklegastur til að ná samtali við stjórnvöld og íslenska þjóð um fjármögnun háskólstigsins?

Guðrún hefur sýnt það í störfum sínum sem forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og sem formaður Norræna rannsóknaráðsins að hún er þrautreyndur stjórnandi sem stýrir með fólki og hlustar á hvað það hefur að segja. Guðrún leiddi tímamótavinnu Vísinda- og tækniráðs sem mótaði nýlega stefnu Íslands í vísinda- og nýsköpunarmálum 2014-2016. Þessi stefna og sú aðgerðaráætlun sem fylgir er tæki sem stjórnvöld nýta sér til að stórefla fjárframlög til háskólamála.

Fjármögnun háskólans

Sáttmáli samfélags og Háskóla Íslands verður eitt meginverkefni Guðrúnar verði hún kjörin. Það er nauðsynlegt að rektor Háskóla Íslands geti gengið fram fyrir skjöldu og talað máli vísinda og menntunar, jafnt við stjórnvöld sem og almenning í landinu, um þær áskoranir sem blasa við í alþjóðlegu samhengi. Slíkan sáttmála á að grundvalla á þeirri augljósu staðreynd, að fjárveitingar til Háskóla Íslands eru fjárfesting í tækifærum og hagsæld komandi kynslóða sem bera mun ríkulegan ávöxt fyrir samfélagið allt.

Það liggur fyrir að Háskóli Íslands er undirfjármagnaður og það bitnar verulega á kennslufyrirkomulagi og möguleikum deilda til að efla kennslu og rannsóknir, innleiða nýjungar og ráða akademíska starfsmenn. Það liggur einnig fyrir að stjórnvöld ætli að auka framlög til háskólamála þannig að þau nái meðaltali OECD ríkja strax árið 2016 og meðaltali Norðurlandanna 2020. Þetta er afar brýnt því þetta mun styrkja innviði Háskólans, efla kennslu og stórefla rannsóknir. Ég treysti Guðrúnu Nordal til að fylgja þessu máli eftir og sjá til þess að stjórnvöld standi við það sem þau hafa lofað. Við erum þegar farin að sjá afrakstur þessarar vinnu þar sem 2.8 milljörðum hefur verið bætt í öflugustu rannsókna- og nýsköpunarsjóði Vísinda- og tækniráðs þ.e. Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð.

Skipulag og innra starf Háskólans

Hlutverk rektors er öðru fremur að tryggja að Háskóli Íslands starfi sem breið heild, þar sem ólíkar greinar geti dafnað og unnið saman þvert á deildir og svið. Tryggja þarf virka samræðu milli fræðasviða og milli yfirstjórnar, annarra starfsmanna og nemenda. Hafa þarf í hávegum akademískt frelsi og hvetja vísindamenn háskólans til að ryðja nýjar brautir. Guðrún Nordal er öðrum fremri í að fá fólk til að vinna saman og það sem einkennir persónu hennar er jákvæðni en að sama skapi stefnufesta og sterk framtíðarsýn. Ég er viss um að verði Guðrún Nordal kjörin rektor mun hún leggja sig alla fram við að auka starfsánægju innan háskólans. Starfsánægja er mælanleg afurð sem eykur framleiðni og árangur starfsmanna og skilar sér beint til nemenda skólans og út í samfélagið.

Gæði kennslu

Góð kennsla og fjölbreyttir kennsluhættir innan Háskólans munu velta á því að skapa frjótt og mannvænlegt umhverfi fyrir kennara og nemendur, létta á miklu vinnuálagi og auka vellíðan starfsfólks eftir niðurskurðarskeið. Í því samhengi hefur Guðrún gert það forgangsmáli að gerð verði úttekt á reiknilíkani kennslu sem nú grundvallast fremur á magni en gæðum, og að gæði í kennslu verði metin að verðleikum. Nemendur og kennarar hafa af því ríka hagsmuni. Nýliðun í akademískar stöður er langt í frá að vera fullnægjandi eins og staðan er í dag. Án nauðsynlegrar nýliðunar mun skólinn ekki dafna í framtíðinni. Ég treysti Guðrúnu örðum fremur til að ná þessum markmiðum.

Nýsköpun í samfélaginu

Háskólinn er ein stærsta stofnun landsins og hefur sérstakar skyldur gagnvart íslensku samfélagi, atvinnu- og menningarlífi. Mikilvægt er að meta nýsköpun í öllum greinum sem hluta af starfsframlagi, sprotafyrirtæki jafnt sem samfélagslega nýsköpun og þróunarstarf í skólum. Rannsóknartengd nýsköpun er verðmætasta tegund nýsköpunar, hvort sem mælt er á samfélagslega, menningarlega eða fjárhagslega mælikvarða. Guðrún Nordal hefur lagt áherslu á að auka sýnileika nýsköpunar innan háskólans og auðvelda sprotahugmyndum að vaxa og dafna.

Að lokum

Guðrún hefur ítrekað sagt að hún muni einungis bjóða sig fram í eitt kjörtímabil (2015 – 2020) og að á þessu tímabili séu markmið hennar skýr. Rétta þarf af undirfjármögnun háskólans, efla kennslu og vísindi, efla nýliðun, auka sýnileika nýsköpunar og síðast en ekki síst gera HÍ að framúrskarandi vinnustað þar sem verður eftirsótt að starfa jafnt sem kennari, nemandi eða við stoðþjónustu skólans. Það yrði heillaspor fyrir Háskóla Íslands ef Guðrún Nordal verður kjörin rektor. Að mínu mati er hún líklegust af frambjóðendunum til að ná samtali við íslensku þjóðina og þar með stjórnvöld í þeirri vegferð að rétta við fjármögnun háskólastigsins. Þessi vegferð er þegar hafin og hefur Guðrún leitt hana í gegnum vinnu sína í Vísinda- og tækniráði. Kjósum Guðrúnu Nordal sem rektor Háskóla Íslands 13. apríl n.k.




Skoðun

Sjá meira


×