Viðskipti innlent

Segist enga hagsmuna eiga vegna nýs frumvarps

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Matorka hyggst hefja bleikjueldi í kjördæmi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra.
Matorka hyggst hefja bleikjueldi í kjördæmi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra.
Eiríkur Svavarsson, einn af eigendum Matorku ehf, segir að verið sé að leitast við að kasta rýrð á störf sín í laganefnd Lögmannafélags Íslands í ljósi eignarhaldsins á Matorku.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að Matorka fengi hundruð milljóna króna í ívilnun vegna bleikjueldis sem til stendur að hefja á Reykjanesi. 

Eiríkur mætti á vegum laganefndarinnar fyrir atvinnuveganefnd Alþingis til að gera grein fyrir umsögn nefndarinnar um nýtt frumvarp til laga um ívilnanir. Eiríkur hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki gert grein fyrir stöðu sinni hjá Matorku.

Eiríkur segir í tilkynningu sem hann sendi atvinnuveganefnd að umrædd heildarlög sem Atvinnuveganefnd óskaði umsagnar laganefndar LMFÍ snerti ekki umsókn Matorku ehf. um nýfjárfestingasamning enda byggr umsókn Matorku, frá því í desember 2013, á lögum frá árinu 2010 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

Eiríkur segir að umsókn Matorku ehf. hafi verið á grundvelli þeirra laga en ekki frumvarpsins sem óskað var umsagnar um. „Ég átti því ekki hagsmuna að gæta á þessum fundi eða gagnvart efnisatriðum þessa frumvarps,“ segir Eiríkur.

Eiríkur segir að með mjög skömmum fyrirvara hafi atvinnuveganefnd óskað eftir að fulltrúi úr laganefnd kæmi fyrir nefndina þann 30. október síðastliðinn. „Þar sem tveir aðrir fulltrúar laganefndar gátu ekki mætt með svo skömmum fyrirvara var þess óskað að ég mætti. Á fundinum fór ég yfir þá umsögn sem laganefnd LMFÍ hafði unnið f.h. nefndarinnar. Í engu var þar vikið að Matorku eða umsóknum um ívilnanir almennt,“ segir Eiríkur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×