Innlent

Andrea rúmliggjandi eftir að hafa varið vinkonur sínar fyrir ofbeldismönnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Andrea Nótt fór úr axlarlið, viðbeinsbrotnaði og tognaði á fæti þegar maðurinn sem áreitti hana og vinkonur hennar hrinti henni í götuna.
Andrea Nótt fór úr axlarlið, viðbeinsbrotnaði og tognaði á fæti þegar maðurinn sem áreitti hana og vinkonur hennar hrinti henni í götuna.
„Þetta á ekki að gerast í nútímasamfélagi,“ segir Andrea Nótt Guðmundsdóttir í samtali við Vísi um árás sem hún varð fyrir aðfaranótt sunnudags í Kaupmannahöfn. Andrea Nótt hafði verið að skemmta sér ásamt vinkonum sínum á skemmtistaðnum Condesa í miðborg Kaupmannahafnar þegar tveir karlmenn byrjuðu að áreita þær á dansgólfinu.

„Þeir byrja á að áreita eina vinkonu mína og toga í buxurnar hennar eins og þeir séu að reyna að ná buxunum niður. Svo er annarri vinkonu minni hrint upp við borð og gripið svo fast í hana að hún er öll marin,“ segir Andrea sem skipaði mönnum að láta þær vinkonurnar í friði og yfirgáfu mennirnir dansgólfið.

Fyrir utan staðinn tók ekki betra við en þar voru mennirnir fyrir utan og beindi einn af þeim sjónum sínum að Andreu. „Hann horfir á mig blákalt og kallar mig hóru og segir að ég sé að biðja um þetta. Vinir hans reyna að róa hann niður en það virkar ekki. Ég ætlaði að labba upp að honum og slá hann utan undir en ég næ því ekki því hann hrindir mér á miðja umferðargötu fyrir utan staðinn,“ segir Andrea en mennirnir hlupu í kjölfarið í burtu.

Andrea gat ekki hreyft sig en við skoðun á sjúkrahúsi kom í ljós að hún hafði farið úr axlarlið, viðbeinsbrotnað og tognað á fæti. Hún segist aldrei hafa séð mennina áður sem hún telur að séu um fertugt eða fimmtugt. Hún ætlar sér að kæra þetta atvik og bindur vonir við að það hafi náðst á öryggismyndavél. Hún hefur þó ekki komist í það enda er hún rúmliggjandi og kvalin.

Hún starfar sem þjónn í Kaupmannahöfn og sér ekki fram á að vinna næstu vikurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×