Viðskipti innlent

Útflutningur til Kína dróst saman þrátt fyrir fríverslun

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Aflabrestur í loðnu vegur þungt í minni útflutningi til Kína. Þá hafa aðrar sjávarafurðir að öllum líkindum verið seldar á aðra markaði vegna betra afurðaverðs.
Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Aflabrestur í loðnu vegur þungt í minni útflutningi til Kína. Þá hafa aðrar sjávarafurðir að öllum líkindum verið seldar á aðra markaði vegna betra afurðaverðs.
Útflutningur Íslendinga til Kína dróst saman um þriðjung á síðasta ári. Árið sem fríverslunarsamningur milli ríkjanna tók gildi. 

Íslendingar fluttu út vörur til Kína fyrir 7.020 milljónir á árinu 2013 samkvæmt talnaefni á vef Hagstofunnar. Tölur fyrir árið 2014 liggja nú fyrir og það vekur sérstaka athygli að útflutningur til Kína dróst saman um tæplega þriðjung og nam samtals 4.803 milljörðum króna. Þetta eru nokur tíðindi því hinn 1. júlí í fyrra tók gildi fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína og einhver gæti dregið þá ályktun að samhliða því myndi útflutningur Íslendinga til landsins aukast.

Þennan mikla samdrátt í útflutningi á milli áranna 2013 og 2014 má fyrst og fremst rekja til samdráttar í útflutningi á nokkrum sjávarafurðum fyrir Kínamarkaðinn samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Hér er um að ræða loðnu þar sem var rúmlega 1,1 milljarðs króna  samdráttur einkum vegna aflabrests í þeirri fisktegund á Íslandi í fyrra, grálúðu þar sem var sem var rúmlega 760 milljóna króna samdráttur í útflutningi til Kína, karfa þar sem var rúmlega 600 milljóna króna samdráttur,  og lýsisafurða, þar sem sem samdrátturinn var rúmlega 500 milljónir króna. Útflutningur þessara afurða eingöngu fór úr um 5 milljörðum króna árið 2013 í um 2 milljarða króna árið 2014.

Hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, áður LÍÚ, fengust þau svör að ekki hefði farið fram ítarlegri greining á þessum tölum. Í einhverjum tilvikum hefðu sjávarafurðir að öllum líkindum verið seldar á aðra markaði en Kína í fyrra þar sem betra verð hafi fengist fyrir afurðirnar.

Talsverðar árstíðabundnar sveiflur eru í loðnuveiðum hér á landi. Í fyrra voru aðeins veidd 105 þúsund tonn af loðnu en á þessu ári verða veidd 580 þúsund tonn. Meðaltals afli síðustu áratuga er 611 þúsund tonn. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×