Viðskipti innlent

UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum

Stefán Árni Pálsson skrifar
mynd/aðsend
UTmessan fer fram þessa dagana í Reykjavík en um er að ræða einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum. Tilgangurinn er að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikil þessi grein er orðin hér á landi. Á UTmessunni eru öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti.

Dagskrá UTmessunnar er tvíþætt: föstudaginn 6. febrúar er fagráðstefna og þann 7. febrúar sýning fyrir alla fjölskylduna, báða dagana í Hörpunni. Á laugardeginum opnar tæknigeirinn uppá gátt og býður öllum að koma og sjá það helsta sem er að gerast í tæknigeiranum dag. Háskólinn í Reykjavík býður að sjálfsögðu upp á skemmtilega dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Hér að neðan má sjá dagskrána á laugardeginum:

Kl. 10-17: Ýmis undur upplýsingatækninnar til sýnis á svæði Háskólans í Reykjavík - Norðurljósasal

Vísindamenn við tölvunarfræðideild verða með gervigreindarhorn þar sem þeir útskýra og sýna afrakstur rannsókna sinna, heilbrigðistæknisvið sýnir 3D útprentaðan heila, hjarta, bein og fleira, boðið verður upp á þátttöku í skemmtilegum mynstraleik og sýnd verða sýnishorn úr tölvuleikjum sem nemendur þróa á þremur vikum.

Nemendur tækni- og verkfræðideildar sýna vatnaflygil, kafbát og eldflaugina Mjölni.

Kl. 13:10 – 13:30 Nemendur tala um tölvuleikjagerð - Kaldalón

Eiríkur Orri Ólafsson og Kári Halldórsson, nemar við tölvunarfræðideild HR, fjalla um hugmyndavinnuna á bak við tölvuleikjagerð og tilfinninguna í tölvuspilinu.

Kl. 15: Tölvutætingur - keppni í að taka tölvu í sundur og setja hana aftur saman - Norðurljósasal.

Á Tölvutætingi fá keppendur vélabúnað í bútum, þeir eiga að setja hann saman og loks koma tölvunni í gang. Sá þátttakandi sem er fyrstur til að kveikja á tölvunni vinnur. Keppnin er opin öllum áhugasömum tölvutæturum á aldrinum 15-25 ára.

Tölvutætingurinn er samstarfsverkefni Promennt og nemendafélagsins /sys/tur frá Háskólanum í Reykjavík. Bás Promennt er á 1. hæð og bás /sys/tra er hjá Háskólanum í Reykjavík í Norðurljósasal. Í básunum er hægt að fikta í tölvum og fylgihlutum, tæta og setja saman. Leiðbeinendur eru á báðum básum sem fræða gesti um vélbúnað tölvunnar og aðstoða við fiktið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×