Viðskipti innlent

Fyrsta verkfall SFR í 31 ár

Jón Hákon Haldórsson skrifar
Árni Stefán Jónsson stendur í ströngu þessa dagana.
Árni Stefán Jónsson stendur í ströngu þessa dagana. Fréttablaðið/GVA
Það hefur mikið mætt á Árna Stefáni Jónssyni, formanni stéttarfélagsins SFR, síðustu daga. Félagsmenn hafa verið í verkfalli að undanförnu og Árni Stefán setið langa samningafundi dögum saman. Árni er þó ýmsu vanur, enda hefur hann verið þátttakandi í stéttarfélagsbaráttunni um áratugaskeið. Hann kom úr námi 1981 og byrjaði þá að vinna í meðferðarbransanum og varð trúnaðarmaður. Hann tók síðan sæti í samninganefnd SFR árið 1987 og starfaði einnig með BSRB. Hann varð síðan framkvæmdastjóri SFR eftir stjórnarskipti árið 1990. Sextán árum seinna var hann kjörinn formaður félagsins.

Árni Stefán nam rafvirkjun og varð formaður Félags nema í rafmagnsiðn og síðar varaformaður Iðnnemasambands Íslands. Síðar flutti hann til Svíþjóðar og tók phil. cand.-próf í félags- og uppeldisfræðum.

Árni Stefán segir að starfsemi SFR hafi undið mikið upp á sig frá því að hann tók fyrst þátt í starfinu. „Við erum að veita miklu meiri þjónustu til félagsmanna í gegnum alls konar sjóði og við höfum sett upp mjög sterkt starfsmenntunarbatterí og eyddum miklum tíma í að taka utan um það,“ segir Árni Stefán. Þetta starf hafi verið unnið í tólf ár, sé mjög sterkt og unnið í góðri samvinnu við fjármálaráðuneytið Árni Stefán segir að margt varðandi kjaramálin hafi breyst. Áður hafi verið unninn einn miðlægur kjarasamningur en nú séu unnir stofnanasamningar fyrir hverja stofnun. „Það hefur kallað á miklu meiri vinnu við að ganga frá málum.“

Þá hefur fjölgað í félaginu undanfarið. „Það varð sprenging í ríkisstarfsmönnum 2002-2007 og við erum komin upp í 5.500 þó að málefni fatlaðra hafi verið færð til sveitarfélaganna. Áður vorum við á milli 2.500 til 3.000.“ Árni Stefán segir að kjarabaráttan sé yfirvegaðri en hún var á árum áður. „Menn tala meira saman og tala öðruvísi saman og eru lausnamiðaðri heldur en hitt. Dæmin sýna það enda hafa félagsmenn í SFR ekki farið í verkfall síðan 1984, eða í 31 ár.“

Hjá SFR er útskiptaregla og menn mega ekki gegna starfi formanns lengur en í tólf ár. Árni segir sinn tíma koma 2017. „Ég er á leiðinni út, en líka kominn á þann aldur.“ Hann segist eiga tímafrekar og skemmtilegar tómstundir sem hann getur lagt meiri rækt við þegar hann hættir. „Ég hef í gegnum árin verið mikill skokkari og svo lagðist ég í hestamennsku. Ég hef eytt tíma þar en vildi gjarnan sinna hestamennskunni meira en ég hef gert,“ segir Árni Stefán. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×