Viðskipti innlent

Sjávarútvegurinn sá eini sem getur greitt auðlindagjald

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur og forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur og forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands vísir/gva
Sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin sem getur greitt auðlindagjald, segir Daði Már Kristófersson. Hann flutti erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni i gær.

Daði benti á að auðlindastjórnun í sjávarútvegi væri virk og skynsamleg og rekstrarhvatarnir skýrir og sterkir. „Þetta tel ég að menn ættu að hafa til hliðsjónar við mótun á nýtingarstefnu annarra auðlinda. Horfi til sjávarútvegarins og skilji hversu miklu máli skiptir að þessir hvatar séu skýrir,“ sagði Daði Már.

Daði vísaði í McKinsey-skýrsluna þar sem fram kemur að einungis ein grein hafi viðunandi virðisauka fjármagns og vinnuafls. Það séu fiskveiðar. Orkugeirinn hafi alltaf búið við frumframleiðslu í höndum opinberra þjónustufyrirtækja. „Opinberum þjónustufyrirtækjum er ekki ætlað að skapa arð,“ segir hann. Þess vegna sé skiljanlegt að þessi fyrirtæki hafi haft takmarkaða arðsemi. „Það skal þó viðurkennt að núverandi stjórnendur t.d. Landsvirkjunar hafa lyft miklu grettistaki í að bæta þessa stöðu og vonandi verður framhald á því,“ sagði Daði, en á síðasta ársfundi Landsvirkjunar boðaði forstjórinn stórauknar arðgreiðslur í ríkissjóð á næstu árum.

„Ferðaþjónustan býr kannski miklu frekar við vanda sem tengist aðgengi og takmörkun að aðgengi að auðlindinni. Í dag er sá aðgangur fullkomlega opinn, samkeppnin er hörð, og þar af leiðandi ólíklegt að einstakir aðilar geti náð að skapa þá rentu sem forsendur eru til,“ sagði Daði.

Þar skorti skýra og virka nýtingarstefnu stjórnvalda til þess að takmarka svæði í því skyni að hámarka arðsemi af auðlindinni. „Menn geta til dæmis velt því fyrir sér hvernig nýtingin og hvernig staðan væri með Bláa lónið ef Bláa lónið væri með opnum aðgangi og væri í þjóðlendu,“ sagði Daði og bætti við að þá væri ferðaþjónustan þar líklegast ekki með sama móti og hún er í dag. „Þá væri þjóðgarðsvörður að banna fólki að fara út í lónið eða nokkrir skúrar þar sem fólk gæti skipt um föt og stokkið út í,“ sagði Daði. Ferðaþjónustan í Bláa lóninu væri algjörlega byggð upp á þeirri forsendu að einn aðili hafi einhvers konar nýtingarrétt. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×