Skoðun

Opið bréf til forstjóra Landspítala

Guðrún I. Gunnlaugsdóttir skrifar
Ágæti forstjóri!

Mikil óánægja ríkir nú meðal ljósmæðra Landspítala eftir að félagsdómur úrskurðaði nú í október í máli sem Ljósmæðrafélag Íslands höfðaði gegn ríkinu. Af hverju kom þessi staða upp?

Ljósmæður tóku þátt í tímabundnu verkfalli sem stóð á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá 7. apríl til 13. júní eða þar til að ríkið setti á okkur lög og lauk þannig verkfalli okkar. Um mánaðamót apríl-maí var fyrsti launafrádrátturinn staðreynd og ætluðum við ljósmæður ekki að trúa okkar eigin augum, þetta hlytu að vera mistök sem yrðu leiðrétt strax en margar hverjar voru þá búnar að vinna alla sína vinnuskyldu. Mánaðamót maí-júní gerist það sama, u.þ.b. 55% af launum okkar eru dregin frá okkur þrátt fyrir vinnu.

Okkur var brugðið, hvernig gat spítalinn athugasemdalaust tekið við vinnuframlagi okkar ef ekki átti að greiða okkur laun? Sá háttur samrýmist ekki þeirri grunnreglu að starfsmaður á að fá laun fyrir þá vinnu sem hann innir af hendi ef hún fellur utan verkfalls. Ljósmæður sýndu áfram mikla þolinmæði enda birtist frá þér tilkynning á vef spítalans þann 3. júní 2015 um að velferðarráðneytinu hefði verið sent bréf þess efnis að það væri skoðun Landspítala að starfsmenn fái greitt fyrir þá vinnu sem þeir inna af hendi, hvort sem það er á verkfallstíma eða ekki og að ráðuneytið hafi tekið undir þá afstöðu Landspítala

Ég spyr því hér, á hverju strandaði? Þegar velferðarráðneytið tók undir afstöðu Landspítala var það þá ekki spítalans að greiða laun fyrir unnin störf?

Áfram segir í tilkynningunni 3. júní sl.: „Í framhaldinu hef ég, ásamt framkvæmdastjórn spítalans, ákveðið að allar launagreiðslur til starfsmanna í verkfalli verði yfirfarnar og lagfærðar eftir þörfum að teknu tilliti til vinnufyrirkomulags starfsmanna á stofnuninni.“ (Tilv. lýkur)

Þarna var ljósmæðrum létt enda baðstu okkur um, kæri forstjóri, að sýna biðlund þar sem flækjustigið væri hátt og vinnsla málsins krefðist tíma. Við biðum lengi, svo lengi að félagið okkar fór með málið fyrir félagsdóm. Flestir vita um úrskurð félagsdóms en þar dæmdu þrír dómarar af fimm okkur í óhag og eru dómsorð þessara þriggja dómara svo flókin að það er ekki fyrir venjulegan mann að skilja. Tveir dómarar skiluðu hins vegar séráliti og er það álit auðskilið og einfalt og hvet ég almenning til að lesa sérálit þeirra http://www.urskurdir.is/Felagsmala/Felagsdomur/nr/7962)

Hvert er hlutverk launadeildar?

Ég spyr hvert er hlutverk launadeildar Landspítala? Er það ekki hennar hlutverk að reikna út laun samkvæmt stimpilklukku og senda til Fjársýslu ríkisins? Okkur hefur verið sagt að Fjársýsla ríkisins hafi sent Landspítala reiknireglu sem eingöngu er hægt að nota fyrir dagvinnufólk. Var það þá ekki í höndum Landspítala að senda hana til baka þar sem hún var ónothæf til útreikninga launa fyrir vaktavinnufólk?

Okkur finnst eins og allir bendi hver á annan, þ.e. fjármálaráðuneytið, Fjársýsla ríkisins og Landspítalinn.

Ég tel að málið hefði ekki þurft að ganga svona langt ef það hefði verið útskýrt á einfaldan hátt varðandi vinnuskipulag vaktavinnufólks. Þeir sem „ráða“ virðast ekki hafa skilið það að stærsti hluti ljósmæðra á LSH vinnur vaktavinnu, þ.e. allan sólarhringinn sjö daga vikunnar. Vinnuvikan er því ekki 8-16 mánudaga til föstudaga eins og þegar um dagvinnumenn eru að ræða. Það var því ekki hægt að nota þá reiknireglu sem Landspítali segir að Fjársýsla ríkisins hafi sent spítalanum til að nota við útreikninga launa.

Ótrúleg þrautseigja

Ljósmæður hafa verið með langlundargeð mikið og hafa sýnt ótrúlega þrautseigju og sýnt spítalanum traust, þær hafa hlaupið til dag sem nótt, helgar sem virka daga þegar kallað er á aukamannskap vegna álags á deildinni til að sinna konum í barnsnauð.

Ófremdarástand er nú að skapast á kvennadeild Landspítala þar sem langlundargeð ljósmæðra er á þrotum. Kæri forstjóri, það verður að finnast lausn á málinu hið snarasta áður en í óefni kemur, það má ekki taka neinar áhættur hvorki varðandi starfsfólk né skjólstæðinga. Fæðingar­vakt Landspítala er sú deild sem er með hæsta þjónustustigið á landinu og á þeirri deild verður alltaf að vera fullmannað. Ljósmæður eru ekki tilbúnar til að taka á sig aukavinnu umfram vinnuskyldu meðan þær hafa ekki fengið greitt fyrir þá vinnu sem þær hafa þegar skilað af sér til spítalans.




Skoðun

Sjá meira


×