Skoðun

Er unga fólkið að gefa stjórnvöldum puttann?

Benóný Harðarson skrifar
Þrátt fyrir að hér drjúpi gull af hverju strái, samkvæmt forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, og heimsmet séu slegin í hverri viku samkvæmt Sigmundi Davíð sýna tölur að mikill fjöldi fólks flytur af landi brott. Stór hluti þeirra sem flytur erlendis er ungt fólk og á því eru einföld skýring; unga fólkið ætlar ekki að láta bjóða sér ástandið á landinu lengur. 

Nær daglega les ég færslur á Facebook þar sem fólk dásamar þau lönd sem vinir og kunningjar hafa nýlega flutt til. Sögurnar hljóma eins og lygasögur, en fólk reynir að telja manni trú um það að ekki þurfi að borga fyrir læknisþjónustu, að leiga eða afborganir á húsnæði séu ekki að sliga heimilisbókhaldið og sumir hafa jafnvel reynt að telja manni trú um það að vinnudagurinn sé styttri og frítíminn meiri. Auk þess þurfi námsmenn ekki að vinna með skóla því námslánin dugi fyrir framfærslu, fæðingarorlof sé lengra, spítalarnir séu ekki að hruni komnir og það sé hægt að fá tíma hjá heimilislækni án þess að bíða í 3-4 vikur. Það skal engan undra að maður spyrji sig af hverju maður er ekki löngu fluttur erlendis sjálfur.

Ég er þeirrar skoðunar að við megum ekki gefast upp. Á Íslandi á að vera best að búa, við eigum nefnilega nægar auðlindir til þess að við getum öll haft það gott. Ef við skiptum arðinum af auðlindum landsins jafnar á milli okkar getum við nefnilega búið til alvöru velferðarsamfélag.

Við viljum flest búa í öflugu velferðarsamfélagi sem býður upp á gott samfélagsnet ef við veikjumst, sem er fjármagnað með skatttekjum. Við viljum að geta notið lífsins þegar við eignumst börn og við viljum geta haft það gott í ellinni. Við viljum að samneysla sjái um okkur þegar eitthvað bjátar á.

Við unga fólkið höfum engan áhuga á því að Bjarni Benediktsson gefi okkur hlut í banka sem við eigum nú þegar, og við viljum ekki að Sigmundur Davíð lofi að moka í okkur milljörðum sem hann stendur svo ekki við nema að litlu leyti. Við viljum ekki að ríkisstjórnin veiki velferðarkerfið okkar enn frekar.

Við viljum bara að hér sé betra að búa, að Ísland verði betra velferðarríki sem hugsar um hag almennings. Við viljum að ríkisstjórnarflokkarnir hætti að berjast fyrir hagsmunum fárra í samfélaginu.

Ég ætla ekki að gefast upp, ég ætla að berjast fyrir betra og réttlátara samfélagi, og ég ætla að gefa allt mitt í það.




Skoðun

Sjá meira


×