Viðskipti innlent

Hagnaður Íslandsbanka 10,8 milljarðar á fyrri helmingi ársins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. vísir/pjetur
Íslandsbanki hefur kynnt afkomutölur sínar fyrir fyrri helming þessa árs. Hagnaður bankans dróst saman um tæpa 4 milljarða samanborið við árið í fyrra. Hann var nú 10,8 milljarðar eftir skatt en var 14,7 milljarðar í fyrra.

Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 14% eiginfjárhlutfall A var 13,9%. Er það hærra hlutfall en á sama tímabili en í fyrra þegar arðsemi eigin fjár var 12,4%.

Eiginfjárhlutfall bankans á fyrri helmingi ársins var 28,3% og hreinar vaxtatekjur námu 13,6 milljörðum króna. Hreinar þóknanatekjur bankans voru 6,4 milljarðar króna en það er 13,2% aukning milli ára.

Kostnaðarhlutfall var 56% en bankakostnaður og einskiptiskostnaður er undanskilinn við útreikning kostnaðarhlutfalls.

Heildareignir bankans voru 976 milljarðar króna.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir í tilkynningu að grunnrekstur bankans hafi styrkt á fyrri helmingi ársins. Það endurspeglist meðal annars í vexti útlána og innlána sem þóknanatekjum.

„Ánægjulegt var fyrir bankann að hljóta hærri einkunn í fjárfestingarflokki hjá bæði Fitch og S&P. Launakostnaður stendur í stað og mun bankinn halda áfram að vinna að hagræðingaraðgerðum til kostnaðarlækkunar. Eiginfjárhlutfall bankans helst áfram sterkt sem og lausafjárstaða bankans. Það er afar mikilvægt nú þegar við horfum fram á losun fjármagnshafta. Íslandsbanki gegnir þar mikilvægu hlutverki og vinnur að þeirri áætlun með eigendum sínum og stjórnvöldum. Stefnt er að töluverðri breytingu á efnahagsreikningi bankans með rammasamkomulagi sem gert var við Glitni.“

Hér að neðan má sjá myndband frá bankanum um afkomutölurnar.

Uppgjör Íslandsbanka á 2. ársfjórðungi from Íslandsbanki on Vimeo.


Tengdar fréttir

Samið um eigur Glitnis

Glitnir sótti í gær um undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Sótt er um þessa undanþágu í samræmi við stöðugleikaskilyrði stjórnvöld kynntu í vor vegna afnáms hafta. Þá hafa Íslandsbanki og Glitnir undirritað rammasamkomulag um samstarf svo að slitameðferð Glitnis nái fram að ganga.

Íslandsbanki úthlutar styrkjum

Sjö fyrirtæki fengu á þriðjudag styrk úr frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Heildarupphæð styrkja nam tíu milljónum króna. Alls bárust þrjátíu umsóknir um styrk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×