Innlent

Athugasemdir umboðsmanns borgarbúa verða teknar alvarlega

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Stefán Eiríksson
Stefán Eiríksson
„Í skýrslu umboðsmanns borgarbúa eru ábendingar og athugasemdir sem ýmist hafa verið teknar til athugunar eða verða teknar til skoðunar. Það verður farið vel yfir skýrsluna,“ segir Stefán Eiríksson, en hann tók við embætti sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir um tveimur vikum.

Í skýrslu umboðsmanns borgarbúa sem kynnt var í fyrradag koma fram ýmsar ábendingar um það sem betur mætti fara á Velferðarsviði. Þar er meðal annars bent á samskipta- og stjórnunarvanda á sviðinu, stjórnskipuleg vandamál og skort á þjónustu við borgarbúa.

„Ég tel að skýrsla umboðsmanns gefi okkur tækifæri til að gera þjónustuna enn betri en hún er í dag. Í henni er að finna ábendingar sem við tökum alvarlega og nálgumst með uppbyggilegum hætti,“ segir Stefán og segir að ein af ábendingunum lúti að því að það skorti fjármagn til að sinna öllum verkefnum sem sviðinu er ætlað.

„Við eigum þó ekki að einblína á það, það er ýmislegt hægt að gera í því að breyta og bæta verklag án þess að það þurfi að kosta aukin fjárútlát,“ bætir hann við.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði á Stöð 2 að embætti umboðsmanns hefði verið stofnað til að fara ofan í saumana á því sem betur má fara í starfi borgarinnar.

Hann segir að á næstunni verði rýnt í skýrslu umboðsmanns borgarbúa, tekið sé mark á þeim athugasemdum sem þar komi fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×