Innlent

Ræddi leiftrin í Eiðamastrinu við útvarpsstjóra

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Mastrið á Eiðum er 220 metra hátt, en þetta er þó ekki það.
Mastrið á Eiðum er 220 metra hátt, en þetta er þó ekki það. Vísir/Getty
„Það er ekki komin niðurstaða en menn eru með á því að við þessu þarf að gera eitthvað,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, sem rætt hefur við útvarpsstjóra um miklar ljóstruflanir frá langbylgjumastrinu á Eiðum.

Héraðsbúar hafa kvartað undan miklum styrkleika og krampakenndu blikki flugöryggisljósanna í langbylgjumastrinu nánast frá því það var formlega tekið í notkun fyrir fimmtán árum. Bæjaryfirvöld hafa fengið fjölmargar kvartanir í áranna rás og tekið undir þær allar en úrbætur hafa látið á sér standa.

Fyrir nítján mánuðum óskuðu bæjaryfirvöld eftir að útvarpsstjóri kæmi austur til fundar. Af því varð aldrei en fyrir tíu dögum hitti Björn bæjarstjóri loks Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra í Reykjavík.1.

Björn Ingimarsson
Allir af vilja gerðir

„Það er ákveðin krafa um hvernig þessi ljós þurfi að vera og það sem við erum að kanna núna er hvort það er hægt að fá flugmálayfirvöld til að samþykkja einhverja mildari útfærslu. Þeir eru allir af vilja gerðir að bregðast við því,“ segir Björn sem kveður fundinn með útvarpsstjóra hafa verið ágætan. „Það er verið að skoða hvort við finnum ekki leið sem gæti orðið ásættanleg.“

Björn segist einnig hafa rætt við starfsmann Isavia um að finna lausn. „Ljós sem lýsir einfaldlega stöðugt væri betri kostur en þetta,“ segir bæjarstjórinn.

Sem fyrr segir er vandamálið ekki nýtt af nálinni. „Ljósin eru iðulega ekki í takti og auk truflunar við fólk er þetta ástand óþolandi ljósmengun,“ bókaði umhverfisráð Austur-Héraðs árið 2004 eftir árangurslausar ábendingar til RÚV árin á undan.

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri hjá RÚV.
Eins og hjá vitleysingum

Sagt var frá því í DV í mars 2004 að gluggar á fjósum væru byrgðir svo að kýr mjólkuðu. „Þetta er eins og diskótek,“ lýsti Sigurður Ragnarsson, þáverandi formaður umhverfisráðs sveitarfélagsins.

„Þetta er bara eins og hjá vitleysingum,“ sagði Þórhallur Pálsson, arkitekt á Eiðum, sem sendi kvörtunarbréf til útvarpsstjóra fyrir þremur árum. Ljósin væru hreinlega stórfurðuleg í sínum krampakennda takti.

Í framhaldi af samtali við Þórhall í Fréttablaðinu var rætt við Kristján Benediktsson, verkfræðing hjá Ríkisútvarpinu. Hann sagði ljósin vera frá bandarísku fyrirtæki og að í þeim væri hönnunargalli. „Ameríkani sem hjálpaði okkur að læra á ljósin og gera við þau sagði að fyrirtækið hefði takmarkaðan áhuga á því að búa til betri ljós því það væru svo góð viðskipti í kringum viðhaldið,“ sagði Kristján við Fréttablaðið 1. desember 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×