Skoðun

30.000 án sjúkrasjóðs

Gunnar Páll Pálsson skrifar
Hvergi í hinum vestræna heimi er stéttarfélagsþátttaka eins almenn og á Íslandi. Um 80% fólks á vinnumarkaði eru í stéttarfélögum í samanburði við um 20% t.d. í Bretlandi. Ástæður er væntanlega nokkrar, einn veigamesti þátturinn er að stéttarfélögin hafa tekið að sér að reka hluta af velferðarkerfinu með sjúkrasjóðum og síðan óbeint með aðkomu að lífeyrissjóðum.

Íslenska almannatryggingakerfið er veikt í samanburði við nágrannalöndin og því hafa stéttarfélög stoppað í götin sem annars staðar eru á hendi ríkis eða sveitarfélaga. Hér tryggja sjúkrasjóðir stéttarfélaga greiðslu á 80% af launum, eftir að veikindaréttur er búinn hjá vinnuveitanda, í 6-9 mánuði þar til hægt er að komast á örorkubætur hjá lífeyrissjóðunum ef veikindi eða afleiðingar slysa vara svo lengi.

Auk þess eru flestir sjúkrasjóðir með dánarbætur, einhverjir eru með dagpeningagreiðslur vegna veikinda barna o.s.frv. Út frá tölum um þátttöku félagsmanna stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði í atkvæðagreiðslum innan þeirra má álykta að þau séu orðnar fjöldahreyfingar þar sem félagsmenn eru að stórum hluta áhugalausir um kjarabaráttu, en sækjast fyrst og fremst eftir annarri þjónustu félaganna, s.s. vernd sjúkrasjóða, orlofshúsum og starfsmenntun.

Öll stéttarfélögin hér eru eins upp byggð með félagssjóði til kjarabaráttu, sjúkrasjóði, orlofssjóði og starfsmenntasjóði og taka til sín 2-2,5% af launasummunni í landinu, yfir 10 milljarða á ári. Mörg hver sýna góðan hagnað og hafa byggt upp myndarlega sjóði. Spurning er hvort ekki megi gera þetta kerfi ódýrara?

Það er athyglisvert að þeir u.þ.b. 30.000 einstaklingar sem standa utan stéttarfélaga og vinnuveitendur þeirra virðast í fæstum tilfellum gera sér grein fyrir stöðunni ef viðkomandi verður óvinnufær af völdum veikinda eða slysa og verður launalaus í 6-9 mánuði. Tryggingarfélögin bjóða upp á vissar lausnir en flestir hafa ekki gert nægjanlegar ráðstafanir og eru illa settir í þessum málum. Ég hvet þá sem standa utan stéttarfélaga að fara yfir sínar afkomutryggingar.




Skoðun

Sjá meira


×