Skoðun

Skottulækningar Péturs Blöndals

Ingimundur Gíslason skrifar
Á Vísi 7. nóvember sl. er haft eftir Pétri Blöndal alþingismanni að vextir á Íslandi séu háir vegna þess að alltof fáir vilji spara. Eitthvað er hæft í þessu en mergurinn málsins er allur annar.

Öllum sparnaði fylgir einhver áhætta og hver sá sem leggur fyrir vill á einhverjum tímapunkti fá peningana til sín aftur og gott betur. Einn veigamikill áhættuþáttur hérlendis er lítið traust til gjaldmiðils okkar, íslensku krónunnar. Reynslan og sagan kennir okkur að aldrei er að vita nema nýjar kollsteypur með tilheyrandi gengislækkun íslensku krónunnar drepi aftur á dyr íslenskra heimila. Þessi áhætta dregur úr vilja fólks til að spara peninga. Hún veldur því að bankar hafa háa vexti á útlánum til öryggis.

Hér fylgir Pétur dyggilega þeirri íslensku umræðuhefð að minnast helst aldrei á grundvallaratriði hvers máls. Hann spyr því ekki sjálfan sig hver sé ein helsta orsök lítils sparnaðar hér á landi.

Pétur bendir á fá úrræði til að örva sparnað nema kannski það helst að fá fólk til að hætta að skulda og í staðinn auka sparnað. En þetta er engin lækning á þjóðarmeini. Þetta er eins og að segja lungnabólgusjúklingi að úða í sig asperíntöflum og að telja honum svo trú um að það muni leiða til fulls bata. Í máli Péturs er lækning einkenna í stað sjúkdóms það helsta sem hann leggur til.

Góð leið til að örva sparnað væri að kasta krónunni á haugana og innleiða gjaldmiðil sem betur er treystandi á grundvelli útbreiðslu og stærðar.

Hins vegar telur Pétur réttilega að hár skattur á nafnvexti dragi einnig úr hvata til sparnaðar. Tuttugu prósenta fjármagnstekjuskattur er mjög hár í landi þar sem vaxtagjöld eru ekki frádráttarbær eins og tíðkast í sumum nágrannalanda okkar

Er ekki kominn tími til að Íslendingar horfist í augu við raunveruleikann?




Skoðun

Sjá meira


×