Skoðun

Hömlur á viðskiptafrelsi eru brýn nauðsyn

Einar Ólafsson skrifar
Með því að segja að hömlur á viðskiptafrelsi séu brýn nauðsyn verða eflaust margir til að telja mig gamaldags og íhaldssaman, enda er það útbreidd skoðun að framtíðin liggi í æ frjálsari viðskiptum.

Frelsi til athafna og samskipta er sannarlega í grundvallaratriðum af hinu góða og það ætti að hafa að leiðarljósi. Það á líka við um frelsi manna til að stunda viðskipti sín á milli. En algert frelsi er óhugsandi í samfélagi, frelsi til athafna hlýtur alltaf að takmarkast við að þær skaði ekki aðra.

Þess vegna eru ýmsar hömlur á frelsi almennt viðurkenndar. T.d. hafa hömlur á frelsi til ýmissa athafna vegna umhverfisáhrifa smám saman verið auknar. Og það er einmitt vegna umhverfisáhrifa sem nauðsynlegt er að takmarka viðskiptafrelsið.

Vöruflutningar valda mengun. Stórir vörubílar, flugvélar og skip valda mengun. Loftslagsbreytingar af völdum mengunar geta haft geigvænlegar afleiðingar á umhverfi okkar og við verðum, þegar til framtíðar er litið, að velja milli þeirra og takmarkana á ýmsu frelsi, svo sem frelsi til vöruviðskipta um langan veg. Þess vegna er mikilvægt að leitast sé við að vörur séu framleiddar sem næst kaupandanum. Þar verður þó við ramman reip að draga, því að voldugir og áhrifamiklir aðilar munu beita sér gegn því þegar það ógnar hagsmunum þeirra. Auk þess þykir það ekki nútímalegt og þess vegna mun almenningur líka verða tregur í taumi, ekki síst margir sem telja sig upplýsta og nútímalega. Og svo krefst það líka mikilla breytinga á viðskipta- og framleiðslukerfi heimsins. Efnahagskerfi heimsins.

Má útfæra á ýmsan hátt

Þess vegna er mikilvægt að fara að huga að þessu sem allra fyrst, því að óhjákvæmilega taka róttækar breytingar í þessum efnum langan tíma. Þessar viðskiptatakmarkanir má útfæra á ýmsan hátt annan en með beinu banni. Frekar mætti hugsa sér mengunargjald á vöruflutninga, kílómetragjald eða eitthvað svoleiðis.

Í þessu sambandi getum við leitt hugann að viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur, enda er mörgum það mjög hugleikið. Íslendingar geta kannski hrósað happi yfir þeim takmörkunum sem við höfum nú á þeim viðskiptum. Við þurfum sem sagt ekki róttækan viðsnúning á því sviði heldur getum við þróað breytingar á því út frá þessari nauðsyn. Við þurfum ekki að rífast um gjöld á innflutning landbúnaðarvara, þau er sjálfsögð sem mengunargjöld. Að undanskildum vörum sem valda smithættu verður innflutningur leyfður, en við sættum okkur við að innfluttar vörur verði dýrar vegna mengunargjaldsins. Gjalds sem sjálfsagt rennur svo í sameiginlega sjóði.




Skoðun

Sjá meira


×