Erlent

Talar í auknum mæli um mikilvægi kvenleiðtoga

Freyr Bjarnason skrifar
Hugsanlega munu áherslur Hillary Clinton breytast ef hún býður sig aftur fram til forseta Bandaríkjanna.
Hugsanlega munu áherslur Hillary Clinton breytast ef hún býður sig aftur fram til forseta Bandaríkjanna. Fréttablaðið/AP
Þegar Hillary Rodham Clinton barðist við Barack Obama um hvort þeirra myndi bjóða sig fram fyrir hönd Demókrataflokksins til forseta Bandaríkjanna árið 2008 lagði hún áherslu á reynslu sína, samkeppnishæfni og skipulagshæfni.

Ef hún ætlar aftur að reyna við forsetaembættið árið 2016 eru líkur á því að áherslur hennar verði öðruvísi, þ.e., að meginþemað snúist um að hún verði fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna.

Clinton, sem er núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ætlar snemma á næsta ári að tilkynna hvort hún ætlar að bjóða sig aftur fram í forsetaembættið. Að undanförnu hefur hún í ræðum sínum talað fyrir styrk kvenna og auknu hlutverki kvenna í hagkerfi og stjórnmálum Bandaríkjanna. Í ræðu á hinni árlegu Clinton Global-ráðstefnu og við önnur tilefni hefur hún lagt áherslu á að umskipti þurfi að verða og að nauðsyn fyrir kvenleiðtoga sé mikil. Þessi atriði gætu átt vel við í mögulegri kosningabaráttu hennar þar sem atkvæði kvenna yrðu afar mikilvæg.

„Ekki láta neinn segja við ykkur að þið séuð að vinna kvennastarf,“ sagði Clinton á ráðstefnu kvenleiðtoga á vegum Demókrataflokksins. „Ekki láta neinn setja ykkur á varamannabekkinn.“

Á Clinton-ráðstefnunni talaði Bill Clinton, eiginmaður Hillary og fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, til Michelle Bachelet, forseta Síle, um þær áskoranir sem kvenkyns leiðtogar standa frammi fyrir. Aðrir ræðumenn voru Mary Barra, forstjóri General Motors, og Ginni Rometty, forstjóri IBM, en þær eru fyrstu kvenkyns stjórnendur þessara fyrirtækja.

Hillary Clinton hefur einnig barist fyrir launajafnrétti, velferðarmálum barna og hækkun lágmarkslauna. Þannig hefur hún um leið minnt áheyrendur sína á að tveir þriðju hlutar þeirra sem lægstar tekjur hafa eru konur.

Þegar hún sóttist eftir forsetaembættinu árið 2008 var hún kynnt til sögunnar sem sterkur leiðtogi í anda Margrétar Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Síðar, þegar hún hafði tapað naumlega fyrir Obama í kosningum Demókrataflokksins, fékk hún mikið lof fyrir frammistöðu sína. Í ræðu sem hún hélt, þar sem hún hugsanlega átti við kynjabaráttuna, sagðist hún ekki hafa brotið glerþak Hvíta hússins en í staðinn skilið eftir 18 milljón sprungur í því. Vísaði hún þar í atkvæðafjöldann sem hún hlaut í forkosningunum. Sex árum síðar er eitt helsta forgangsmál hennar hjá Clinton-stofnuninni verkefni sem heitir „Engin þök“ og snýst um eflingu kvenna úti um allan heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×