Innlent

Rauða krossinum boðnir óskilamunir úr flugvélum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Farþegar virðast einkum gleyma hlutum í sætisvösum þegar þeir yfirgefa vélarnar.
Farþegar virðast einkum gleyma hlutum í sætisvösum þegar þeir yfirgefa vélarnar. VÍSIR/ÓSKAR
Mikið af óskilamunum berst lögreglunni á Suðurnesjum frá Leifsstöð á hverju ári, að sögn Gunnars Björnssonar, skrifstofustjóra hjá embættinu. Hann segir þó nákvæma tölu fyrir hvert ár ekki liggja fyrir.

„Að langmestu leyti er um að ræða bækur, fatnað og gleraugu. Einnig er eitthvað um farsíma, spjaldtölvur og álíka muni sem fólk virðist einkum gleyma í sætisvösum þegar það yfirgefur vélarnar,“ greinir Gunnar frá.

Hann segir ganga misjafnlega að finna eigendur óskilamunanna, eins og gefi að skilja. „Sem betur fer er talsvert um að eigendur átti sig á hvar þeir gleymdu þeim og sæki þá eða kalli eftir þeim sé um erlenda ferðamenn að ræða. Sé eitthvað til að átta sig á sem vísar á eigandann er reynt að hafa samband við hann. Þegar tekst að hafa upp á eiganda er honum boðið upp á að óskilamunurinn sé sendur honum á hans kostnað og það er gert kjósi hann það.“

Verðmætir hlutir eru geymdir í að minnsta kosti eitt ár en aðrir skemur. Spurður hvað gert sé við óskilamuni þegar ekki tekst að finna eigendur þeirra segir Gunnar að leitað hafi verið til Rauða krossins og samtökunum boðnar bækur og fatnaður. „Það er einnig leitað til Fangelsismálastofnunar og fleiri stofnana hvað varðar móttöku á bókum. Dýrari munum, svo sem símum og spjaldtölvum, er eytt undir eftirliti lögreglu takist ekki að finna eigendurna.“

Að sögn Gunnars hefur óskilamunum fjölgað nokkurn veginn í hlutfalli við aukinn fjölda ferðamanna. Einn starfsmaður er í fullu starfi við umsjón óskilamuna og að reyna að koma þeim til skila. „Á mestu álagstímum kemur annar starfsmaður honum til aðstoðar.“

Gunnar segir að ef auka ætti þjónustustigið þyrftu starfsmenn að vera fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×