Innlent

Sjálfsvíg eru samfélagsmein

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Um 15 af hverjum hundrað þúsund Íslendingum fremja sjálfsvíg. Nítíu prósent af þeim eiga geðrænan og/eða vímuefnavanda að stríða. Tíu prósent sjálfsvíga eru framin af tímabundinni örvæntingu og meiri hvatvísi.
Um 15 af hverjum hundrað þúsund Íslendingum fremja sjálfsvíg. Nítíu prósent af þeim eiga geðrænan og/eða vímuefnavanda að stríða. Tíu prósent sjálfsvíga eru framin af tímabundinni örvæntingu og meiri hvatvísi. vísir/valli
Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er sjálfsvígs­tíðni á Íslandi með þeirri hæstu í Evrópu. Í kjölfar útgáfu skýrslunnar hefur verið rætt við þá sem hafa reynt sjálfsvíg, ástvini þeirra sem hafa farið með þeim hætti og fagfólk í geðheilbrigðisstéttinni í fjölmiðlum undanfarna viku.

Skilaboðin eru skýr. Forvarnir, fræðslu og úrræði þarf að efla. Með forvörnum og fræðslu verður umræðan um geðsjúkdóma og sjálfsvíg opnari sem vinnur á fordómum. Fordómar búa til skömm. Skömm býr til þöggun. Þöggun hjálpar engum.

Skeytingarleysi gagnvart öðrum

Fjögurra barna faðir, sem hefur verið heimilislaus undanfarna mánuði vegna veikinda sinna, hafði samband við blaðamann í kjölfar umfjöllunar um sjálfsvíg. Hann hefur aldrei átt við vímuefnavanda að stríða en hefur misst allt sitt vegna þunglyndis. Hann svaf í bílnum sínum á bílastæðinu við geðdeild Landspítalans í allt sumar og íhugaði hvernig best væri að binda enda á líf sitt. Einhvers staðar í hjarta sínu vonaði hann að eftir honum yrði tekið og honum boðin hjálp. En hann segir sinnuleysi Íslendinga vera ótrúlegt.

„Oft á tíðum þegar ég var fyrir utan bílinn og starfsfólk spítalans átti vaktaskipti, fór ég að fylgjast með fólkinu sem átti leið hjá. Ef það hefði litið upp og litið á mig hefði verið auðvelt að sjá að þarna var utangarðsmaður búinn að koma sér fyrir á náttstað. En mjög fáir litu upp. Þeir sem gerðu það litu eldsnöggt í augu mín, en bara augnablik og síðan fóru þeir strax í sömu göngustöðu og við Íslendingar þekkjum svo vel,“ skrifar maðurinn í bréfi sínu.

Faðir drengs sem svipti sig lífi vegna pókerskuldar tekur í sama streng. Hann segir að gefa þurfi náunganum gaum í stað þess að líta í hina áttina þegar einhverjum í kringum okkur líður illa, hvort sem það er samnemandi, vinnufélagi eða fjölskyldumeðlimur.„Við verðum að passa betur upp á hvert annað,“ segir hann.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherraKristján Þór Júlíusson.
„Hverjar eru forvarnirnar þegar komið er á leiðarenda sjálfsmorðingja?“

Margir sem rætt var við í vikunni nefndu að eina aðstoðin sem þeim hefði verið boðin í kjölfar sjálfsvígstilraunar væri lyfjaskammtur.

Heimilislausi maðurinn segir að pantaður hafi verið tími fyrir hann á göngudeild til að fylgjast með lyfjunum, það var eina eftirfylgnin. Hann spyr að lokum í bréfi sínu: „Hverjar eru forvarnirnar þegar komið er á leiðarenda sjálfsmorðingja?“

Yfirlæknir á geðsviði segir mikilvægt að takast á við þunglyndi á fyrstu stigum með sálfræðimeðferð. Hann bætir þó við að auðveldara sé að nálgast lyf en sálfræðimeðferðir, enda sé viðtalsmeðferð dýr og því aðgengi fólks að henni ójafnt eftir fjárhagsstöðu.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að forvarnir vegna sjálfsvíga verði liður í nýrri geðheilbrigðisstefnu.

„Skoðað verður hvernig heilsugæslustöðvar geti boðið upp á sálfræðiþjónustu í auknari mæli en nú er gert,“ segir Kristján og vísar til fyrirkomulagsins í Bretlandi þar sem hugræn atferlismeðferð er orðin hluti af opinberum leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda. Hann segir upphafskostnað geta verið mikinn en reynslan sýni að þetta sé til bóta þegar til lengri tíma er litið með minnkandi lyfjakostnaði og að fólk skili sér fyrr aftur út á vinnumarkaðinn.

Hugrekki að segja frá

Eftirlifendur og þeir sem hafa reynt sjálfsmorð kalla eftir aukinni fræðslu og forvörnum. Þessir aðilar hafa tekið stærstu skrefin í þá átt, með því að ræða reynslu sína opinberlega. Sú umræða sem skapast við það er mikilvægasta vopnið gegn fordómum. Stjórnvöld hljóta að eiga næstu skref, með því að styrkja þessa baráttu með auknum fjármunum í skipulega geðræktarfræðslu og stuðning við þá sem eiga um sárt að binda. Við hin getum lagt okkar af mörkum og hætt að líta undan þegar einhverjum líður illa í kringum okkur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×