Innlent

Þvingunaraðgerðir hafa litla þýðingu fyrir Íslendinga

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Íslendingar hafa tekið þátt í viðskiptaaðgerðum ESB og Bandaríkjanna gagnvart Rússum.
Íslendingar hafa tekið þátt í viðskiptaaðgerðum ESB og Bandaríkjanna gagnvart Rússum. Vísir/AFP
Íslendingar hafa tekið þátt í viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins og Bandaríkjanna vegna ástandsins í Úkraínu á grundvelli EES-samningsins. Þvingunaraðgerðirnar varða viðskiptabann, farbann eða frystingu fjármuna. Slíkar takmarkanir varða EES-samninginn sem kveður á um frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og fólks innan EES.

„Það sem hefur verið ákveðið til þessa hefur ekki haft neina praktíska þýðingu fyrir Íslendinga, mér vitanlega. Þetta hefur verið á svo takmörkuðum sviðum sem þessar þvingunaraðgerðir hafa verið ákveðnar,“ segir Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, og bætir við að það sé fyrst og fremst táknrænt að taka undir þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins.

„Menn verða þó að hafa í huga að ekki er hægt að fara með viðskipti hingað til lands sem annars hefðu átt sér stað milli ESB-ríkja og Rússlands,“ segir Birgir.

Birgir ármannsson
Hér á landi hafa þvingunaraðgerðirnar verið innleiddar með reglugerðum.

Það var 21. mars sem Íslendingar tóku fyrst þátt í þvingunum Evrópusambandsins gegn rússneskum og úkraínskum einstaklingum sem tengjast aðgerðum Rússa á Krímskaga. Þá voru fjármunir nokkurra einstaklinga frystir og 18 einstaklingum, sem taldir voru ógna sjálfstæði Úkraínu, var meinað að ferðast til ESB-landa, auk þeirra landa sem tóku þátt í aðgerðunum með þeim. Fleiri ámóta reglugerðir fylgdu í kjölfarið á næstu vikum og mánuðum og fleiri eru í bígerð.

Heldur var hert á í lok júní. Þá var tilkynnt um viðskiptabann á vörur frá Krím og Sevastopol. Bannið gildir þó ekki um vörur frá þessum stöðum ef þeim fylgir upprunavottorð frá úkraínskum stjórnvöldum.

Í lok síðasta mánaðar var enn hert á. Þá var lagt bann við viðskiptum með skuldabréf rússneskra fjármálafyrirtækja, sett var útflutningsbann til Rússlands á hergögnum og vörum með tvíþætt notagildi til hernaðar, útflutningsbann á tæki fyrir olíuiðnaðinn til djúpsjávarkönnunar og framleiðslu. Þá er bann lagt við könnun á olíuvinnslumöguleikum á norðurskauti eða leirsteinaolíuframleiðslu í Rússlandi.

Eins og komið hefur fram í fréttum hafa Rússar brugðist hart við þessum þvingunaraðgerðum og tilkynntu í síðustu viku að þeir hefðu ákveðið að setja á innflutningsbann gagnvart þeim þjóðum sem hafa staðið í þvingunaraðgerðum gegn landinu. Ísland var ekki á þeim lista.


Tengdar fréttir

Samband forsetanna skyldi ekki vanmeta

Því er hent fram að Rússar hafi gleymt Íslandi þegar bannlisti á Vesturlönd var dreginn upp. Bent er á að gott samband Ólafs Ragnars Grímssonar og Vladimírs Pútín gæti hafa skipt máli. Eins að Rússar "hafi not“ fyrir Ísland síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×