Innlent

Hafa mikil áhrif á líf fárra

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Árni Helgason hefur undanfarna mánuði undirbúið samvinnu við héraðið Buikwe. Héraðið var valið af utanríkisráðuneytinu eftir mikla upplýsingaöflun svæðisskrifstofunnar um öll fiskveiðihéruð landsins. Búist er við að hafist verði handa við uppbyggingu á löndunaraðstöðu, salernum og vatnshönum á allra næstu mánuðum.
Árni Helgason hefur undanfarna mánuði undirbúið samvinnu við héraðið Buikwe. Héraðið var valið af utanríkisráðuneytinu eftir mikla upplýsingaöflun svæðisskrifstofunnar um öll fiskveiðihéruð landsins. Búist er við að hafist verði handa við uppbyggingu á löndunaraðstöðu, salernum og vatnshönum á allra næstu mánuðum. mynd/gunnisal
Úganda er eitt af þremur samstarfsríkjum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) og þar er megináhersla lögð á samvinnu við héruð sem byggja afkomu sína á fiskveiðum. Árni Helgason verkefnastjóri hóf starfið í Úganda árið 2000 og hefur stýrt verkefnum í landinu með stuttum hléum síðan.

„Það hafa orðið miklar breytingar í Úganda á þessu tímabili. Höfuðborgin, Kampala, hefur þróast hratt með vaxandi millistétt og aukinni kaupgetu. En svo er það hinn heimurinn fyrir utan Kampala. Þar eru lífshættir enn mjög frumstæðir þar sem fólk býr án rafmagns, neysluhæfs vatns og það er ekkert raunverulegt mennta- eða heilbrigðiskerfi.“

Kennum ekki fiskveiðar

Fiskisamfélögin hafa það hvað verst varðandi aðstöðu og möguleika. Það er ein ástæða þess að ÞSSÍ velur að einblína á fiskveiðihéröð og einnig sú staðreynd að Ísland er líka fiskveiðiþjóð. Jafnvel þótt verklagið sé algjörlega ólíkt.

„Við komum ekki og kennum þeim hvernig eigi að veiða fisk. Þau kunna það miklu betur en við í sínu umhverfi enda tæknistigið allt annað hér en á Íslandi. Hér er ekkert frystihús eða vinnslutæki, yfirleitt ekki einu sinni hreint vatn. Við aðstoðum við að gera áætlanir eftir óskum héraðsstjórnar, aðstoðum við að framkvæma þær og fjármagna að einhverju leyti. Þegar verkefnatími er liðinn á verkefnið að ganga af sjálfu sér án aðkomu okkar.“

Úti í eyjum í Viktoríuvatni hefur ÞSSÍ unnið með eyjaskeggjum og bætt aðstöðu til fiskverkunar og hreinlætis til muna.mynd/gunnisal
Þörfum þorpsbúa mætt

Árni segir áherslu vera lagða á gæðamál, hreinlæti og neysluhæft vatn. Upprunalega var eingöngu sett upp hreinlætisaðstaða við löndunarstaði. Þá var byggð aðstaða fyrir meðferð á fiskinum í stað þess að verka hann á moldugri jörð, vatnsveita var byggð og hreinlætisaðstaða. Markmiðið með aukinni gæðastjórnun var að hækka útflutningsverð á fisknum. Því markmiði hefur verið náð og hefur þróunin verið sú síðustu ár að allt þorpið fær að njóta góðs af verkefninu.

„Löndunarstaðurinn er girtur af og þorpsbúar horfðu löngunaraugum yfir girðinguna á hreint vatn og salernisaðstöðu. Við breyttum því verkefninu og mættum þörfum allra þorpsbúa með sambærilegri aðstöðu inn í þorpinu. Í raun hefur verkefnið fengið meiri samfélagslegan fókus.“ 

Náðu að útrýma kóleru 

Árangurinn hefur verið góður. Í einu þorpi í Norður-Úganda voru flest tilfelli kóleru í landinu. Þúsundir manna fengu kóleru vegna óhreins vatns og skorts á salernisaðstöðu og kostaði sjúkdómurinn töluvert marga lífið. Eftir að ÞSSÍ, í samvinnu við UNICEF, setti upp hreinlætisaðstöðu og vatnshana í þorpinu er kóleran á bak og burt. Ekki eitt tilfelli hefur komið upp á síðustu tveimur árum. 

Þannig getur ÞSSÍ haft mikil áhrif þótt stofnunin sé lítil en verkefnin í Úganda kosta um það bil 3-4 milljónir dollara á ári. Til samanburðar setja Norðurlöndin 40-60 milljónir dollara á hverju ári til þróunarsamvinnu í Úganda. 

„Við erum ekki með slagkraftinn til að takast á við stór verkefni þannig að við þurfum að vera afmörkuð og passa okkur að vera ekki með mikilmennskubrjálæði. Þannig náum við að hafa mikil áhrif á líf fárra í stað þess að þessi litla fjárhæð gufi upp, til dæmis með því að eyða henni allri í að kaupa bréfaklemmur fyrir heilbrigðisráðuneytið.“

Með samvinnu við ÞSSÍ hefur tekist að hækka verð á fiskafurðum. Hér sjást konur með varning sinn til sölu á fiskmarkaði.mynd/gunnisal



Fleiri fréttir

Sjá meira


×