Mikil fjölgun hefur orðið á byggingakrönum á höfuðborgarsvæðinu síðan í dýpstu lægðinni eftir hrun. Segja má að kranar spretti nú upp eins og gorkúlur.
Samkvæmt talningu Fréttablaðsins árið 2010 voru sjötíu kranar uppi á höfuðborgarsvæðinu. Þó voru einungis 24 þeirra í notkun en aðrir stóðu óhreyfðir og erfitt reyndist að fá eigendur þeirra til að taka þá niður. Nú eru ónotaðir reistir kranar teljandi á fingrum annarrar handar. Fréttablaðið taldi 144 krana á rúnti sínum um höfuðborgarsvæðið.

„Það sem er að gerast er að allir kranar sem voru til eru komnir upp og það er byrjaður þó nokkur innflutningur. Við erum að taka inn nýjan krana og erum nærri viss um að þegar við reisum hann í næstu viku þá muni hann seljast,“ segir Þröstur.

Ólafur Klemensson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum, segir að fylgni megi sjá í fjölgun byggingakrana og sölu á íbúðamarkaði.
„Við tókum þetta saman meira í gamni en í alvöru snemma í vor. Við tengdum saman fjölda uppsettra byggingakrana og þróun fjárfestinga í íbúðarhúsnæði og þá kom í ljós gríðarlega gott samband. Það kom okkur þægilega á óvart,“ segir Ólafur.
Samkvæmt spá Seðlabankans mun fjárfesting í íbúðarhúsnæði aukast um 23,9 prósent á árinu 2014 og 17,7 prósent á næsta ári.
Georg Árnason sér um eftirlit með byggingakrönum fyrir Vinnueftirlitið. Hann segist hafa töluvert meira að gera í vinnu nú en fyrir nokkrum árum. Mikilvægt sé þó að ná jafnvægi í byggingariðnaðinum svo hann endurspegli heilbrigðan efnahag.