Innlent

Klúrar spurningar dynja á unglingum

Snærós Sindradóttir skrifar
Börnin geta nálgast vefsíðuna í gegnum snjallsímann og eru því tengd henni allan daginn. Dæmi eru um að kennarar hafi þurft að grípa inn í vegna notkunar síðunnar í skólanum.
Börnin geta nálgast vefsíðuna í gegnum snjallsímann og eru því tengd henni allan daginn. Dæmi eru um að kennarar hafi þurft að grípa inn í vegna notkunar síðunnar í skólanum. Fréttablaðið/Stefán
Mikill fjöldi unglinga er með aðgang að vefsíðunni ask.fm þar sem aðrir notendur geta nafnlaust spurt börnin spurninga. Mörg dæmi eru um að svívirðingar og einelti tíðkist á síðunni.

Við upplýsingaöflun á vefsíðunni einskorðaði Fréttablaðið sig við börn í grunnskóla. Dæmi um spurningar sem grunnskólastúlkur fengu eru: „Ertu hrein?“, „Puttar þú þig mikið?“ og „Hvað myndirðu gera ef þú værir með honum og hann myndi fara ofan á þig og klæða þig úr nærbuxunum?“

En börnin taka ekki einungis við spurningum. Vefsíðan er líka notuð til eineltis sem birtist þá öllum sem skoða aðgang viðkomandi. Dæmi um skilaboð til ungrar stúlku sem Fréttablaðið fann við stutta leit er: „Ojj, ert svo ógeðsleg og fkn leiðinleg allir hata þig. Hengdu þig mella“ og „Ert svo glötuð allir vita að þú sért búin að ríða en þú ert að reyna að láta engan vita það.“

Öll þau börn sem Fréttablaðið skoðaði og höfðu verið virk á síðunni höfðu tekið við skilaboðum í svipuðum dúr. Eins og áður segir er vefsíðan vinsæl á meðal unglinga. Allar spurningar sem börnin kjósa að svara eru opinberar en þeir sem senda börnunum skilaboð eða spurningar geta falið sig á bak við nafnleynd sem ekki verður rofin.

Anný Björg Pálmadóttir og Guðberg Konráð Jónsson.
Anný Björg Pálmadóttir, móðir tólf ára stúlku, skráði sig inn á vefsíðuna til að skoða hvað færi fram þar eftir að ábending barst frá skóla stúlkunnar um eineltismál tengt síðunni.

„Ég ákvað að skrá mig þarna inn tiwl að fylgjast aðeins með þessu. Og það voru vægast sagt ömurleg skilaboð sem ég sá,“ segir Anný sem kveður það á ábyrgð foreldra að leiðbeina börnum sínum um samskipti á internetinu. „Ég veit um stúlku sem var búin að fá þvílíkt ógeð inn á síðuna sína og burðast með þetta sjálf í nokkra daga og sagði engum frá því. Þau eru oft í mikilli vanlíðan með það sem er að gerast þarna inni án þess að við fáum að vita.“

Guðberg Konráð Jónsson, verkefnisstjóri hjá SAFT, samtökum sem sérhæfa sig í netöryggi barna, segir að foreldrar hafi haft samband til að leita ráða. Í þeim tilfellum þar sem lögreglumál tengd síðunni hafi komið upp hafi reynst erfitt að fá upplýsingar og gögn frá forsprökkum vefsíðunnar. „Við vonuðum lengi að þessi síða yrði aldrei vinsæl hér,“ segir Guðberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×