Lífið

Blint bónorð á aðfangadagskvöld

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Mynd/Anna Ólöf Kristjánsdóttir
Hugblær miðalda sveif yfir vötnum þegar leikarinn Erlendur Eiríksson og Fjóla Einarsdóttir þróunar- og stjórnmálafræðingur gengu í heilagt hjónaband í sumarskrúða borgfirskrar náttúru. Gullbryddaður brúðarkjóll Fjólu var handsaumaður í Senegal.



„Við kynntumst í búningapartíi þar sem ég var máluð sem svört kona í gordjöss, senegölskum kjól en Erlendur var íklæddur skotapilsi. Það var ást við fyrstu sýn og síðan höfum við ekki sleppt hvort öðru,“ segir Fjóla um örlagaríkt fertugsafmæli sameiginlegrar vinkonu þeirra Erlends.

„Við vissum frá fyrstu stundu að þetta væri stóra ástin í lífinu,“ segir Fjóla sem átta mánuðum síðar fékk rómantískt bónorð.

„Erlendur bað mín á aðfangadagskvöld 2012, eftir jólastundir með stórfjölskyldunni. Þá batt hann fyrir augu mér og keyrði langt út í buskann, að mér fannst, en reyndist vera akstur upp og niður Öskjuhlíð. Bíllinn stöðvaðist svo við Hótel Natura þar sem blikandi kertaljós lýstu upp bleiku svítuna og þar kraup Erlendur og bað mín með gullhringa í öskju. Ég játaðist honum auðvitað strax og við áttum jólanóttina í svítunni.“



Brúðarkjóll frá Afríku


Undirbúningur að brúðkaupinu hófst fljótt og var brúðkaupsdagurinn ákveðinn 20. júlí í fyrra.

„Við erum bæði hrifin af búningum og sérstaklega heilluð af klæðaburði miðalda,“ segir Fjóla um klæðaburð gestanna sem fengu boð um að mæta í búningum frá 14. til 18. aldar.

„Ég átti kynstrin öll af miðaldalegu efni í bláum og grænum lit sem ég ætlaði að nota í dúka en endaði með að sauma úr þrettán brúðarmeyjakjóla á vinkonuhópinn. Á vini brúðgumans voru svo saumaðar skikkjur með hettum og saman stóðu þau heiðursvörð.“



Fjóla bjó og starfaði í Senegal áður en hún kynntist Erlendi og lét sauma á sig brúðarkjólinn þar.

„Í Senegal eru litlar saumastofur á hverju horni og afríkst handverk óskaplega fagurt. Ég sendi því málin mín út ásamt skýringarmynd og efni og sex vikum síðar kom kjóllinn heim og smellpassaði á mig,“ segir Fjóla um gullfallegan brúðarkjólinn.

Erlendur klæddist skyrtu í stíl breskra hefðarmanna á miðöldum, vesti og gulum buxum.

„Skyrtuna saumaði móðir hans heitin fyrir lokaverkefnið í leiklistarskólanum og í raun merkilegt að hafa átt svo hjartfólgna hluti úr fortíðinni sem hæfðu þema miðaldabrúðkaupsins. Þannig drukkum við brúðarskál úr bikurum sem ég gaf foreldrum mínum í brúðkaupsafmælisgjöf, þá tíu ára.“

Erlendur og Fjóla, nýgift og hamingjusöm, með veislustjórunum Brynju Valdísi Gísladóttur leikkonu og Sesselju Thorberg innanhússhönnuði.mynd/Anna Ólöf Kristjánsdóttir
Hressandi og rómantískt

Séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson gaf Fjólu og Erlend saman í Reykholti en brúðkaupsveislan var haldin á Bifröst.

„Brúðkaupsdagurinn var fullkominn og undirbúningur hans endalaust ævintýri,“ segir Fjóla. „Þannig fór ég á miðnætti undir Snæfellsjökul að sækja Djúpalónsperlur fyrir borðmerkingar og Erlendur útbjó brúðarvöndinn úr blómum úr náttúru Bifrastar.“

Þegar athöfnin hófst gengu hettuklæddir menn inn kirkjugólfið undir þunglamalegri tónlist kantötunnar Carmina Burana.

„Það var til gamans gert og fór uggur um kirkjugesti en við tók glaðlegur brúðarmars í flutningi dóttur brúðgumans og vinkonu hennar á harmóníku og horn.“



Í kirkjunni söng Erlendur þrjú lög til eiginkonu sinnar og sem hjón gengu þau út syngjandi og allir tóku undir: „Líttu á lífsins björtustu hlið“, sem frægt var með Monty Python-genginu.

„Athöfnin var bæði hressandi og rómantísk. Ég fann svo vel að ég var að gera rétt og vöknaði um augu þegar presturinn talaði um þýðingu hjónabandsins. Þá brynntu margir músum þegar Erlendur söng til mín, en aðallagið var Space Oddity eftir David Bowie þar sem kunnugir vita að ég hef verið Lady Stardust frá unglingsaldri.“



Ástarbarn fætt


Brúðkaupsveislan stóð fram á rauðamorgun og kvöddu brúðhjónin veislugesti á sjöunda tíma morgunsársins.

„Upp úr stendur hamingjan og gleði ástvina. Úr brúðkaupinu fórum við í rómantískt sumarhús og áttum þar fáeina hveitibrauðsdaga, en síðar í brúðkaupsferð og dekur til Krítar sem við unnum í brúðkaupsleik Rásar 2.“



Fjólu finnst miklu muna fyrir þau Erlend að vera orðin hjón.

„Maður skynjar svo vel að hjónabandið er til lífstíðar og að saman munum við ganga í gegnum súrt og sætt. Hjónabandinu fylgir líka meiri nánd og öryggiskennd; það kvikna nýjar tilfinningar og annar hugsunarháttur. Þegar maður hefur svo eignast ástarbarn í þokkabót erum við orðin sannkölluð fjölskylda,“ segir Fjóla sem á hveitibrauðsdögunum uppgötvaði að hún væri barnshafandi. Fyrir átti hún tvítugan son og Erlendur fimmtán ára dóttur en í mars fæddist þeim ástarbarnið Eiríkur Sæberg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.