Lífið

Gera upp gamlar kirkjur

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Hjónin Snorri Guðvarðsson og Kristjana Agnarsdóttir hafa sérhæft sig í að endurgera málverk í gömlum kirkjum. Þau féllu bæði fyrir þeirri gömlu tækni og handverki sem til þarf og vinna vel saman.
Hjónin Snorri Guðvarðsson og Kristjana Agnarsdóttir hafa sérhæft sig í að endurgera málverk í gömlum kirkjum. Þau féllu bæði fyrir þeirri gömlu tækni og handverki sem til þarf og vinna vel saman. mynd/ úr einkasafni
"Þetta er ákveðin kúnst. Það getur ekki hver sem er stokkið í þessi verk með okkur. Við segjum stundum að það þurfi að vera málari, listmálari og föndrari í sér og búa auk þess yfir ómældri þolinmæði,“ segir Snorri Guðvarðsson málari en hann og eiginkona hans, Kristjana Agnarsdóttir, ferðast um landið og endurgera málverk í kirkjum og gömlum húsum.

Snorri segir þau bæði hafa kolfallið fyrir tækninni og handverkinu sem til þarf.

Snorri hefur sérhæft sig í viðarmálun. Hann segir ómælda þolinmæði þurfa til slíkra verka. mynd/ úr einkasafni
„Við vinnum með efni sem notuð voru fyrir hundrað árum, línolíum-málningu, línolíum-kítti og fleira. Við endurnýjum mikið viðarmálun sem sumir kalla „oðrun“, marmaramálun á súlum og gólfum og vinnum með blaðgull. 

Pabbi var mikið í viðarmálun og þannig kviknaði áhuginn hjá mér. Ég byrjaði árið 1976 á kirkjunni á Grund í Eyjafirði og féll algerlega fyrir þessari gömlu veröld. Ég sérhæfði mig sjálfur með því að lesa bækur, skoða myndir og gera endalausar tilraunir. Kristjana hefur unnið með mér í um 12 ár og það var eins hjá henni, hún féll strax fyrir þessu,“ segir Snorri og bætir við að þau hjónin séu afar samhent.

„Kristjana er fullkominn félagi í þetta. Hún er fyrirmyndar málari og mikill föndrari í sér. Og miklu þolinmóðari en ég,“ segir hann sposkur.

Alls eru þær orðnar fimmtíu, kirkjurnar sem hjónin hafa unnið við. Sumar þeirra hafa þau tekið í allsherjar yfirhalningu en unnið minni verk í öðrum. Þetta er seinleg vinna og yfirleitt flytja þau á staðinn í hvert sinn. Þeim finnst það lítið mál og oft fara þau aftur og aftur á sömu staðina.

Úr Skinnastað í Öxarfirði.
„Yfirleitt eru verkin fjármögnuð með styrkjum og algengt að einhver hluti sé tekinn í gegn eitt árið og svo annar árið eftir. Þetta eru hálfgerð eilífðarverkefni og við höfum alltaf eitthvað að gera,“ segir Snorri. „Næsta verk hjá okkur er Þykkvabæjarklausturskirkja, síðan kirkjan á Þverá í Laxárdal og svo á Litla-bæ í Skötufirði vestur á fjörðum.“

En sinna þau eitthvað venjulegri húsamálun?

„Nei, ég á einhverjar rúllur úti í skúr, en það er nákvæmlega ekkert spennandi lengur,“ segir Snorri sposkur. „Við búum síðan í húsi sem byggt var árið 1877 og því stöðug vinna við að halda því við. Það á afar vel við okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.