„Dágóður vöxtur virðist hafa verið í einkaneyslu á síðasta fjórðungi nýliðins árs, ef marka má kortaveltutölur,“ segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Þá hefur vöxtur kortaveltu ekki verið jafn hraður og á nýliðnum ársfjórðungi síðan á fjórða ársfjórðungi 2011. Vöxturinn breytir heildarmyndinni fyrir 2013 töluvert.
Á 4. ársfjórðungi í heild óx kortavelta að raungildi um 4,2% frá fyrra ári. Þar af var vöxtur erlendu kortaveltunnar 13,4% en innlend kortavelta óx um 3,2%. Eins og áður segir er þetta hraðasti raunvöxtur kortaveltu síðan á 4. ársfjórðungi 2011, en þá var hann 5,7%.
Raunvöxtur kortaveltu í desember nam 7,5 prósentum á milli ára og innanlands jókst veltan um 6,7 prósent að raungildi. Kortavelta erlendis óx hinsvegar um 16,6 prósent. Mikil velta í jólamánuðinum er árviss, en engin einhlýt skýring er á þessum fjörkipp. „Hugsanlegt er að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem kynntar voru í nóvemberlok, hafi hleypt auknu lífi í innkaup landsmanna fyrir þessi jól.“
Á tímabilinu drógust bílakaup talsvert saman, en þau voru lífleg á síðasta ársfjórðungi 2012 og áttu stóran þátt í að skýra að vöxtur einkaneyslunnar þá var umfram vöxt kortaveltu. „Að teknu tilliti til þessa gerum við ráð fyrir að einkaneysla hafi vaxið um 2,5% – 3,0% að raunvirði á 4. ársfjórðungi 2013 frá sama tíma árið áður,“ segir í Morgunkorninu.
Þessar nýju kortatölur styrkja Seðlabankann væntanlega í þeirri skoðun að hagkerfið sé að taka við sér. Í nóvember spáði bankinn 1,9 prósent vexti einkaneyslu á árinu 2013 og eru kortatölurnar í samræmi við það.
„Það kemur svo í ljós með kortaveltutölum næstu mánaða hvort innstæða var fyrir aukinni neyslugleði landans í jólamánuðinum, eða hvort heimilin þurfa að herða beltin fastar að nýju á þorranum og góunni.“
Hæsti vöxtur kortaveltu frá 2011
Samúel Karl Ólason skrifar

Mest lesið


Ójafnrétti að konur þurfi að ganga á veikindarétt vegna barneigna
Viðskipti innlent

Selja Lagarfoss með tæpleg hálfs milljarðs tapi
Viðskipti innlent

Hótar Kanadamönnum hærri tollgjöldum
Viðskipti erlent

Völdu Noreg fram yfir Ísland þrátt fyrir að besta lausnin væri hér
Viðskipti innlent

Um forvitna yfirmanninn
Atvinnulíf

Eiginkona stjórnarmanns keypti óvart í bankanum
Viðskipti innlent

Fyrirtæki í vopnaframleiðslu eru á rauðum lista
Viðskipti innlent

Fyrsta íslenska grænkera ostagerðin í hættu
Viðskipti innlent
