Forsvarsmenn ferðaskrifstofa segja landeigendur stefna stærstu útflutningsgrein landsins í voða með fyrirhugðum gjaldtökum á ferðamannastöðum. Í tilkynningu frá fimm ferðaskrifstofum segir að undanfarnar vikur hafi hver landeigandinn á fætur öðrum stigið fram og ætli að hefja gjaldtöku við marga af lykilferðamannastöðum Íslands.
Forsvarsmennirnir krefjast þess að stjórnvöld stöðvi afdráttarlaust fyriráætlanir landeigenda.
Má þar nefna Geysi, Námaskarð, Leirhnjúka, Dettifoss og Látrabjarg. „Með þessu ryðjast landeigendur fram með látum og tillitsleysi við atvinnugreinina, stefna ímynd landsins og áratuga þrotlausu markaðsstarfi í hættu,“ segir í tilkynningunni.
Einnig segir að þar að auki virði landeigendur að vettugi þær leikreglur sem gildi í alþjóðlegri ferðaþjónustu, því löngu sé búið að verðleggja og selja stóran hluta hópferða til Íslands árið 2014 og ekki hægt að velta aðgangseyri að svæðunum út í verð ferðanna og þar með yfir á neytendur eftir á.
„Það er því ljóst að ef fyrirætlanir landeigenda ná fram að ganga munu íslenskir ferðaskipuleggjendur og ferðaskrifstofur sitja uppi með tugmilljóna tjón sem getur stefnt rekstrargrundvelli þeirra í hættu.“
„Landeigendur ætla auk þess án þess að blikka auga að svipta íslenskan almenning þeim rétti að ferðast um landið hindrunarlaust og láta Íslendinga á ferð um landið sitt greiða aðgangseyri að náttúruperlum.“
Þá segir í tilkynningunni að fáum sé ljósara að aðgerða sé þörf við viðhald og uppbyggingu ferðamannastaða, en þeim sem hafi að lifibrauði að skipuleggja ferðir um Ísland. Verið sé að vinna að heildstæðri lausn á verndun náttúruperla og uppbyggingu ferðamannastaða í samvinnu allra hagsmunaaðila. „Það gerir framgöngu landeiganda ennþá meira óviðeigandi.“
Einnig segir að óvissuþættir á borð við yfirvofandi skatta og gjöld geti valdið ómældum skaða í sölu og markaðssetningu ferða til Íslands.
„Með hagsmuni alls Íslands sem ferðamannalands hljótum við því að krefjast þess að stjórnvöld stöðvi afdráttarlaust þessar fyrirætlanir landeigenda og gefi tafarlaust út yfirlýsingu þess efnis. Við þurfum vinnufrið til að klára þetta mikilvæga mál þar sem ferðamannalandið Ísland er að veði.“
Undir yfirlýsinguna skrifa:
Ferðaskrifstofan Atlantik – Gunnar Rafn Birgisson
Ferðaskrifstofan Snæland Grímsson – Hallgrímur Lárusson
Ferðaskrifstofan Terra Nova – Bjarni Hrafn Ingólfsson
Ferðaskrifstofan Katla DMI og Katla Travel GmbH – Bjarnheiður Hallsdóttir
Viator – Pétur Óskarsson
