Lífið

Borðuðu kjúkling í öll mál í heila viku

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hönnuðir óskabeinsins f.v. Laufey Rut Guðmundsdóttir, Guðný Ósk Karlsdóttir, Jóna Kristín Benediktsdóttir, Helga Hauksdóttir og Ólöf Marý Waage Ragnarsdóttir
Hönnuðir óskabeinsins f.v. Laufey Rut Guðmundsdóttir, Guðný Ósk Karlsdóttir, Jóna Kristín Benediktsdóttir, Helga Hauksdóttir og Ólöf Marý Waage Ragnarsdóttir mynd/einkasafn
„Við ákváðum að við vildum framleiða hálsmen og vissum alltaf frá upphafi að Við ætluðum að styrkja gott málefni. Við heilluðumst af óskabeininu sem er nú er búið að vera í tísku úti í Ameríku,“ segir Helga Hauksdóttir en hún ásamt Laufeyju Rut Guðmundsdóttur, Jónu Kristínu Benediktsdóttur, Guðnýju Ósk Karlsdóttur og Ólöfu Marý Waage Ragnarsdóttur stofnaði fyrirtækið Infinity í frumkvöðlafræði sem er áfangi sem þær eru saman í í Verzlunarskóla Íslands.

Í frumkvöðlafræðinni mega nemendur gera það sem þá langar til, hvort sem það er að framleiða vöru sjálfir, panta hana að utan, eða fara út í nánast hvað sem er sem fellur undir frumkvölastarfsemi. „Óskabeinið er smíðað úr silfri hjá Gull- og silfursmiðjunni Ernu og þykir okkur það einstaklega fallegt. Við erum stolt að segja frá því að allur ágóði mun renna óskiptur til Krabbameinsfélagsins,“ útskýrir Helga.

Einn meðlimur hópsins missti pabba sinn úr krabbameini fyrir tveimur árum og því er þetta verkefni stúlkunum hjartans mál. „Við munum leggja okkur allar í að vinna verkefnið eins vel og við mögulega getum.“

óskabeinið fagurt er
Óskabein finnst í fuglum og hjálpar þeim að standast álag af fluginu. Þær borðuðu kjúkling í öll mál til þess að finna alvöru óskabein sem þær vildu nota sem mót fyrir gripinn og tókst það á endanum. „Daginn eftir að við höfðum fundið rétta óskabeinið, fórum við með það til gullsmiðsins. Hann hringdi svo í okkur skömmu síðar en þá hafði hundur eyðilagt beinið og við þurftum að afhenda nýtt bein. Þá fórum við í að finna nýtt bein sem heppnaðist líka svona vel.“

Þá tók við bið eftir frumgerðinni. „Þegar við höfum séð hana vissum við að þetta yrði flottur gripur og þá hófst leitin að keðjum og umbúðum,“ bætir Helga við. Þær hönnuðum og framleiddu umbúðirnar sjálfar og tók sú vinna rúman mánuð. „Við gætum ekki verið sáttari með útkomuna.“

Hægt er að fjárfesta í einu slíku á fébókarsíðu stúlknanna undir nafninu Óskabein.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.