Viðskipti innlent

Vilja framleiða kísil, lífdísil og viðarkubba á Grundartanga

Haraldur Guðmundsson skrifar
Um 870 manns starfa hjá þeim tíu fyrirtækjum sem nú eru á Grundartanga í Hvalfirði.
Um 870 manns starfa hjá þeim tíu fyrirtækjum sem nú eru á Grundartanga í Hvalfirði.
Nýtt spennivirki Landsnets á Grundartanga eykur líkur á að fyrirtækjum á svæðinu fjölgi. Þetta segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Fyrirtækið hefur að undanförnu fengið þó nokkrar fyrirspurnir um lóðir á Grundartanga en þær eru í eigu Faxaflóahafna. Fréttablaðið greindi í síðustu viku frá því að bandaríska fyrirtækið Silicor Materials hefði óskað eftir lóð á svæðinu undir sólarkísilverksmiðju sem gæti framleitt um sextán þúsund tonn af kísil á ári.

Gísli Gíslason
„Það mál er lengra komið en önnur sem eru annaðhvort í biðstöðu eða á frumstigi. Þar er um að ræða bæði innlenda og erlenda aðila sem vilja annaðhvort hefja sína eigin framleiðslu eða veita fyrirtækjum á svæðinu þjónustu. Ég á alveg eins von á því að áhugi fyrir svæðinu eigi eftir að aukast enn frekar með hækkandi sól og batnandi efnahagsástandi.“

Gísli vill ekki fara nánar út í þær fyrirspurnir sem enn eru á frumstigi en tvær umsóknir eru í biðstöðu. Þar er annars vegar um að ræða umsókn félagsins Quantum ehf., sem er í eigu innlendra aðila, um lóð undir þurrkun á timbri og framleiðslu á viðarkubbum. Hin umsóknin er frá öðru félagi í eigu innlendra aðila, At­lantic Green Energy, en forsvarsmenn þess vilja framleiða lífdísil á svæðinu. 

„Við fáum líka fyrirspurnir sem við teljum ekki tækar inn á svæðið og í haust settum við umsókn fyrirtækis sem óskaði eftir aðstöðu til niðurrifs á skipum í biðflokk.“ 

Faxaflóahafnir eiga nú í viðræðum við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar um breytingar á aðalskipulagi Grundartanga. 

„Við létum gera umhverfis­úttekt á Grundartangasvæðinu í maí í fyrra og höfum lagt það til við sveitarstjórnina að breytt aðalskipulag taki mið af þeirri úttekt. Ný starfsemi sem fylgdi losun á brennisteinsdíoxíði eða flúor væri því ekki valkostur á Grundartanga og undir það myndi til dæmis falla kísilbræðsla,“ segir Gísli.

Spennivirki Landsnets á GrundartangaMynd/Íris Ríkharðsdóttir verkfræðistofunni Eflu
Nýtir betur núverandi flutningslínur

Nýja spennivirkið er norðvestan við lóð Norðuráls á Grundartanga og er hugsað sem fyrsti áfangi í endurskipulagningu orkuafhendingar á svæðinu. Framkvæmdir hófust fyrir tveimur árum, þær hafa kostað um tvo milljarða króna og virkið verður formlega tekið í notkun næstkomandi þriðjudag. Virkið gerir Landsneti kleift að nýta betur núverandi flutningslínur, bæta spennustýringu og eykur flutningsgetu rafmagns inn á svæðið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×