Innlent

Loforð um göngustíga byggð á sandi

Snærós Sindradóttir skrifar
Nýja „stéttin“ við Furulundarhverfið sem stendur við leikskólann.
Nýja „stéttin“ við Furulundarhverfið sem stendur við leikskólann. Fréttablaðið/Kolbeinn Konráðsson
Ekki er fært fyrir hjólastóla, barnavagna og fólk sem notast við göngugrindur á nýjum „gangstéttum“ sem lagðar voru í Varmahlíð í Skagafirði fyrr í júnímánuði. Gangstéttirnar eru gerðar úr sandi.

Indriði Þór Einarsson, sviðstjóri framkvæmdarsviðs í sveitarfélaginu Skagafirði, segir að fjármagn vanti til að klára verkefnið.

„Þetta verður vonandi ekki svona lengi. Þetta varð kostnaðarsamara en við gerðum ráð fyrir. Við þurfum að átta okkur á hvar við stöndum í kostnaði og athuga með fjármagn, hvort við getum ekki sett yfirlag eða eitthvað meira.“

Framkvæmdirnar sem um ræðir eru meðal annars neðan við Menningarhúsið Miðgarð og við leikskólann.

„Það voru ekki göngustígar þarna fyrir svo nú er þetta orðið klárt fyrir yfirlag,“ segir Indriði.

„Það er hægt að setja malbik á þetta eða hellur eða hvaða klæðningu sem maður vill. Þetta er ekki vinna sem er fyrir bí en stefnan er að reyna að setja eitthvað meira á þetta. Við reynum að gera meira á þessu ári en við verðum að fá samþykki fyrir því. Við erum búin að nýta það fjármagn sem við höfum í þetta verk núna.“

Mikil óánægja ríkir á meðal íbúa Varmahlíðar með frágang göngustíganna. Sandurinn er um það bil tíu sentímetra djúpur og það er ekki auðvelt að ganga í honum. Auk þess fylgir framkvæmdinni mikill sóðaskapur sem eykst í rigningu.

Megnið af hinum nýju „gang­stéttum“ er til uppfyllingar við kantstein sem hefur staðið einn, án hellulagnar, um árabil. Einnig hefur sandi verið dreift til hliðar við umferðargötu án merkingar. Það þykir íbúum skapa verulega hættu.

„Ég veit alveg að þetta er ekki nógu gott. Það verður máluð lína þarna með fram en til þess að gera betri gangstétt þarf að fara í alla götuna,“ segir Indriði. Kolbeinn Konráðsson, íbúi í Varmahlíð, hefur reynt að fá skýr svör um framkvæmdina en án árangurs.

„Maðurinn sem ég talaði við á sveitarstjórnarskrifstofunni sagði bara „gefðu þessu nokkra mánuði“. Þetta á að vera svona í sumar. En svo frystir og snjóar, og svo leysir og hvert fer þá sandurinn? Hann rennur beina leið niður brekkurnar þar sem ekki er kantsteinn til að verja hann. Oddviti Framsóknar lofaði því á fundi fyrir kosningar að það kæmu malbikaðar gangstéttir,“ segir Kolbeinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×