Innlent

Viðræður við Rússa áfram á ís

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Skreytingarnar á EFTA-fundinum vöktu mikla athygli, en í þeim var sjávarþemað í aðalhlutverki. Efniviðurinn er margvíslegur, má þar nefna lunda og krabba, net og netakúlur og annað það er sjósókn tengist. Hraunmolar skreyttu fundarsalinn sem og skeljar og sjávargrjót. Fréttablaðið/Óskar Pétur Friðriksson
Skreytingarnar á EFTA-fundinum vöktu mikla athygli, en í þeim var sjávarþemað í aðalhlutverki. Efniviðurinn er margvíslegur, má þar nefna lunda og krabba, net og netakúlur og annað það er sjósókn tengist. Hraunmolar skreyttu fundarsalinn sem og skeljar og sjávargrjót. Fréttablaðið/Óskar Pétur Friðriksson
Ráðherrafundur EFTA-ríkjanna var haldinn í Vestmannaeyjum í gær. Meginviðfangsefni fundarins var staða fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna. Samhljómur var meðal ráðherranna um að stefna að því að ljúka samningaviðræðum við Indland eins skjótt og mögulegt væri.

Viðræðum EFTA við tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan var frestað ótímabundið fyrr á árinu og voru ráðherrarnir einhuga um að þráðurinn yrði ekki tekinn upp aftur í viðræðunum fyrr en friðvænlegar horfir í Úkraínu.

Eitt meginviðfangsefna fundarins voru umræður um fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna (TTIP). Áréttuðu ráðherrarnir mikilvægi þessara viðræðna fyrir alþjóðlega fríverslun og undirstrikuðu hve brýnt það væri að EFTA-ríkin héldu áfram að fylgjast náið með viðræðunum.

Þá ræddu ráðherrarnir gang viðræðnanna við Víetnam, Malasíu og Indónesíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×