Stjórn Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, hefur þungar áhyggjur af kjaradeilu framhaldsskólakennara og stjórnvalda. Stjórnin sendi frá sér ályktun um málið í dag, þar sem fram kemur að hún vilji koma ákveðnum atriðum á framfæri.
Fyrst er að foreldrar telja mikilvægt að í skólum starfi færir kennarar sem fái sanngjörn laun. Þá harma foreldrar það ef til verkfalls kemur því það muni hafa veruleg neikvæð áhrif á nám nemenda.
„Foreldrar hafa síðan snemma í haust hvatt samningsaðila til að gera það sem í þeirra valdi stendur til að finna lausn á deilunni. Því eru vonbrigði að enn sé ósamið,“ segir í ályktuninni. Þá hvetur stjórnin samningsaðila til að ná samningum sem allra fyrst svo kjaraviðræður hafi ekki áhrif á nám framhaldsskólanema.
