Innlent

Festast á Kleppi þrátt fyrir að hafa lokið meðferð

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Algengt er að fólk, sem lokið hefur meðferð og er er tilbúið til útskriftar, sé fast inni á geðdeildum vegna skorts á viðeigandi búsetuúrræðum. Kostnaður við að halda þessu fólki inni á spítalanum hleypur á hundruðum milljónum króna, auk þess sem sjúklingar sem þurfa á meðferð að halda komast ekki að.

Búsetumál geðfatlaðra eru í miklum ólestri en ekki hefur bæst við nýtt sértækt búsetuúrræði frá árinu 2010. Í dag eru þrettán einstaklingar á Geðsviði Landspítala sem ekki er unnt að útskrifa vegna skorts á viðunandi búsetuúrræðum. Gunnlaug Thorlacius félagsráðgjafi vinnur náið með þessum hópi og segir stöðuna verða þess valdandi að markmið endurhæfingar og sá bati sem fólk hefur náð sé í hættu.

Af þessum þrettán einstaklingum hafa flestir beðið í sex mánuði eða lengur eftir að geðendurhæfingu er lokið, fjórir hafa beðið í meira en ár. Þess má geta að kostnaður samfélagsins við hvern sjúkling sem liggur á geðdeild er varlega áætlaður um hundrað þúsund krónur á dag. Út frá þessum tölum má áætla að kostnaður vegna þessara þrettán einstaklinga sé í kringum 300 milljónir króna.

Gunnlaug segir að sértæk búsetuúrræði séu án því efa hagkvæmari kostur fyrir samfélagið en að sjúklingar bíði inni á spítalanum mánuðum saman, auk þess sem þau fela í sér aukin lífsgæði fyrir þá sem glíma við geðsjúkdóma.

Í ljósi þessa er mikilvægt að hafa í huga að heildarfjöldi þeirra legurýma sem endurhæfingardeildir hafa yfir að ráða eru um 40 og því óhætt að segja að um þriðjungur þeirra sé tepptur. Á meðan það ástand varir er ekki hægt að taka við öllum þeim sjúklingum sem liggja á bráðageðdeildum og bíða geðendurhæfingar auk þess sem erfiðara er að þjónusta þá sem þurfa á bráðaþjónustu að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×