Jóna Margrét náði ekki að kveðja með Íslandsmeistaragull um hálsinn en átti ótrúlegt úrslitaeinvígi þar sem hún jafnaði tólf ára met Ragnheiðar Stephensen.
Jóna Margrét skoraði 41 mark í leikjunum fimm eða 8,2 mörk að meðaltali í leik. Hún varð þar með önnur konan í sögu úrslitakeppninnar sem brýtur 40 marka múrinn í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn og sú fyrsta síðan Ragnheiður Stephensen skoraði einnig 41 mark fyrir Stjörnuna í úrslitaeinvíginu á móti Haukum vorið 2002.
Ragnheiður skoraði tveimur mörkum fleira af vítalínunni heldur en Jóna Margrét í nýlokinni úrslitaseríu.

Ragnheiður þurfti eins og Jóna Margrét núna að sætta sig við silfurverðlaun alveg eins og sjö af átta sem hafa skorað flest mörk í einu úrslitaeinvígi í sögu úrslitakeppni kvenna. Topplistinn fylgir hér með, en af átta efstu varð bara Ragnheiður Íslandsmeistari þegar hún skoraði 36 mörk í úrslitaeinvíginu 1998 en Stjarnan vann þá Hauka í oddaleik.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir skoraði 31 mark fyrir Val í einvíginu í ár og komst með því inn á topp tíu listann en hún er jafnframt í öðru sæti yfir þær sem hafa skorað mest og fagnað titlinum.
Flest mörk í úrslitaeinvígi kvenna:
41/16 Jóna Margrét Ragnarsdóttir, Stjörnunni 2014
41/18 Ragnheiður Stephensen, Stjörnunni 2002
38/10 Ragnheiður Stephensen, Stjörnunni 1997
37/9 Stella Sigurðardóttir, Fram 2012
36/10 Ragnheiður Stephensen, Stjörnunni 1998
34/17 Karen Knútsdóttir, Fram 2010
33/9 Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Stjörnunni 2013
32/9 Ragnheiður Stephensen, Stjörnunni 1992
31/5 Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Val 2014
31/19 Alla Gkorioan, Gróttu/KR 2000