Innlent

Kvikan gæti náð inn í Öskju og tendrað öflugt sprengigos

Kristján Már Unnarsson skrifar
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir hættu á að kvikan frá Bárðarbungu nái inn í eldstöðvakerfi Öskju og geti þá tendrað öflugt sprengigos. Hann telur samt mestar líkur á að yfirstandandi hrina endi sem kvikuinnskot sem nái aldrei til yfirborðs. Rætt var við Harald í fréttum Stöðvar 2 í kvöld og Íslandi í dag.

Haraldur fór með okkur að gígunum í Berskerkjahrauni í dag en hann telur mestu hættuna núna vera þá að kvikan undir Vatnajökli nái inn í aðra eldstöð, nefnilega Öskju.

„Það er hugsanlegt að þessi gangur núna geti komið inn í kvikuþróna í Öskju og það er mikið vandamál. Kvikuþróin undir Öskju gæti innihaldið súra kviku, það er að segja líparítkviku, eins og kom upp í gosinu 1875. Það var eitt af stærri sprengigosum sem orðið hafa á Íslandi. Og við vitum það að þegar kvika kemur utan að inn í kvikuþró af súrri kviku, eins og gerðist 1875, þá verður sprengigos," segir Haraldur.

Hann rifjar upp að í Öskjugosinu 1875 hafi öskufall orðið það mikið að stórar byggðir lögðust í eyði á Austurlandi, auk þess sem það eldgos sé talið hafa hrundið af stað fólksflutningunum til Vesturheims.

Hann telur þó mestar líkur á að það verði ekkert eldgos heldur endi hrinan sem kvikuinnskot sem ekki nái til yfirborðs. Hann segir skjálftavirknina benda til að gangurinn sé enn á miklu dýpi, á 10-15 kílómetra dýpi, og sé jafnvel að færast dýpra.

Haraldur segir að menn verði þó áfram að vera viðbúnir jökulhlaupi. Ef það verði eldgos sé ekki víst að það komi upp þar sem gangurinn endar.

„Það er alls ekki víst. Gangurinn getur opnast allur. Þannig að það getur komið upp kvika miklu víðar og líka undir jöklinum. Þanng að hætta á jökulhlaupi er ekki búin. Gangurinn getur risið upp á yfirborðið á mjög skömmum tíma. Og þá kemur hann upp að hluta til undir jökli og veldur þá miklum hlaupum. Það má alls ekki afskrifa það."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.