Innlent

Yfir fjörutíu íbúðir standa tómar

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Bæjarstjórinn segir það gríðarlega erfitt að fá leiguhúsnæði í Garði en þó vantar ekki íbúðirnar.
Bæjarstjórinn segir það gríðarlega erfitt að fá leiguhúsnæði í Garði en þó vantar ekki íbúðirnar. fréttablaðið/gva
Mikill fjöldi íbúða í eigu Íbúðalánasjóðs er ónýttur á meðan mikill skortur er á leiguíbúðum. Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, hefur óskað eftir fundi með stjórn Íbúðalánasjóðs en þar í bæ er á fimmta tug tómra leiguíbúða í bænum þótt eftirspurnin sé mikil.

„Þessar íbúðir væru allar í nýtingu stæði það til boða,“ segir hann. Ef við gefum okkur að þrír leigðu í hverri íbúð væri að minnsta kosti 120 íbúum fleira í Garði ef íbúðirnar stæðu til boða.

Magnús segist búast við því að nágrannasveitarfélögin muni sameinast um að leysa málið með Íbúðalánasjóði en svipaður vandi finnst þar, til dæmis í Vogum og Sandgerði. Segir hann að það geti ekki verið nokkurs hagur að íbúðirnar standi auðar því enginn haldi þeim við né görðunum í kring sem séu ekki bæjarprýði eins og sakir standa.

Ekki bætir það stemninguna að sjá síðan byggingu Garðvangs standa auða en hjúkrunarheimilinu var lokað og vistfólk þess sent til Nesvalla sem teknir voru í notkun í Reykjanesbæ í mars síðastliðnum. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær, segir bæjarstjórinn, að eftirspurnin eftir húsnæði beri það með sér að gott sé að búa í Garði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×