Lífið

Varðliðar umhverfisins fyrir jökulmælingar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hluti af 7. bekk Hvolsskóla skólaárið 2013 til 2014 við skyldustörf nærri Sólheimajökli, ásamt kennara sínum Jóni Stefánssyni sem jafnframt er verkefnisstjóri Grænfánans við skólann.
Hluti af 7. bekk Hvolsskóla skólaárið 2013 til 2014 við skyldustörf nærri Sólheimajökli, ásamt kennara sínum Jóni Stefánssyni sem jafnframt er verkefnisstjóri Grænfánans við skólann. Mynd/úr einkasafni
„Við fengum flott skjal, þetta er mikill heiður,“ segir Sigurlín Sveinbjarnardóttir, skólastjóri Hvolsskóla, um viðurkenninguna Varðliðar umhverfisins sem skólinn fékk fyrir verkefnið Jökulmælingar.

Hún tók við þeim í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrir skólans hönd, ásamt Jóni Stefánssyni kennara og fulltrúum úr þeim árgöngum sem hafa tekið þátt í verkefninu síðustu ár.

Undanfarin haust hefur 7. bekkur Hvolsskóla farið að Sólheimajökli og mælt hversu mikið hann hafi hopað á árinu og fyrsti árgangurinn sem tók þátt í því verkefni er að ljúka 10. bekk í vor.

Frá fyrstu mælingu að þeirri næstu hopaði jökullinn um 43 metra, það næsta um 39 metra en síðastliðið haust hafði hann einungis hopað um 8 metra.

„Það var mikil ævintýraferð farin síðasta haust því erfitt var að komast að GPS-punktinum sem þurfti að mæla,“ segir Sigurlín og heldur áfram.



„Stórt lón hafði myndast fyrir framan jökulsporðinn svo það þurfti að fá björgunarsveitina Dagrenningu til aðstoðar. Hluti hópsins fór í bát en sumir krakkarnir vildu frekar labba og fengu þá viðeigandi búnað til að ganga yfir jökul. Þetta var mjög spennandi.“



Hvolsskóli er eini skólinn á landinu sem hefur tvívegis fengið viðurkenninguna Varðliðar umhverfisins því hann hlaut þau líka árið 2010. Stendur hann sig svona vel í umhverfismálum?

„Já, skólinn okkar hefur verið með grænfána frá árinu 2008 og er að gera ýmsa góða hluti í þessum efnum. Á þessu svæði eru einstakar náttúruperlur og fallegir staðir. Það er mikill hvati fyrir okkur því auðvelt er að fyllast áhuga á að fara vel með landið og vernda það.

Sjálf er Sigurlín uppalin á Torfastöðum í Fljótshlíð og býr enn í hinni fögru hlíð. Innt í lokin eftir því hversu lengi hún hafi verið skólastjóri Hvolsskóla svarar hún:

„Ég hef sinnt því starfi frá árinu 2009 og hef mikinn áhuga á umhverfismálum en kennararnir og krakkarnir eru samt í aðalhlutverki við að sinna þeim. Ég bara reyni að hvetja þau og styrkja og sjá til þess að fjármálin séu í lagi og ramminn í kringum verkefnin.“

Um keppnina

Verkefnasamkeppnin Varðliðar umhverfisins er haldin á meðal grunnskólabarna í 5. til 10. bekk. Hún var haldin í fyrsta skipti vorið 2007. Það eru umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur sem standa að henni.

Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.

Nemendum er frjálst að skila inn verkefnum á hvaða formi sem er svo lengi sem þau eru sannarlega unnin af nemendunum sjálfum og umfjöllunarefni þeirra eru umhverfismál í víðum skilningi þess orðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.